Framtíðarvandinn Þorsteinn Pálsson skrifar 10. febrúar 2009 06:00 Deila forsætisráðherra og bankastjórnar Seðlabankans er fortíðarvandi. Að réttu lagi hefði bankastjórnin átt að leysa það mál sjálf og ótilkvödd á sama tíma og stjórnendur viðskiptabankanna fóru frá. þá var gjaldmiðillinn hruninn og verðbólgumarkmiðið fokið út í veður og vind. Búsáhaldabyltinguna og ríkisstjórnarskiptin má rekja til þess að bankastjórnin skynjaði ekki þennan veruleika. Bréfaskipti forsætisráðherra við einstaka bankastjórnarmenn eru orðin að broslegum vindmylluslag. Þau benda til þess að forsætisráðherrann telji sig ekki hafa lögmæt rök til frávikningar. Frumvarp forsætisráðherra um breytt skipulag á yfirstjórn Seðlabankans leysir á hinn bóginn þann vanda. Frumvarpið staðfestir aftur á móti að nýja ríkisstjórnin er sama marki brennd og fyrri ríkisstjórn. Hún skilar auðu um þá stefnu sem fylgja á í peningamálum. Það stefnuleysi mun draga kreppuna á langinn og gera hana dýpri en vera þyrfti. Rétt eins og fortíðarvandinn hverfist um seðlabankastjórana snýst framtíðarvandinn um ríkisstjórnina. Bráðabirgðaráðstafanir án framtíðarmarkmiða duga skammt. Það sem verra er: seðlabankafrumvarpinu fylgja engar lýsingar á þeim skyndiráðstöfunum sem breyta eiga Seðlabankanum úr gjaldeyrisskömmtunarskrifstofu í seðlabanka á ný. Enn síður geymir frumvarpið hugmyndir um framtíðarstefnu. Ríkisstjórnin þarf að gera grein fyrir því hvernig hún ætlar að tryggja neytendum eðlilegt jafnvægisgengi og sannfæra innstæðueigendur í bönkunum á sama tíma að ástæðulaust sé að fara með peningana úr landi. Ætli ríkisstjórnin hins vegar að sætta sig við viðvarandi gjaldeyrishöft þarf að segja það. Ugglaust er enn unnt að ná meiri hagræðingu í sjávarútvegi. Hann stendur hins vegar ekki undir miklum vexti í framtíðinni. Á næstu árum eru því einnig takmörk sett hversu orkusala getur staðið undir miklum vexti. Öll önnur atvinnustarfsemi kallar á sambærilegt efnahagsumhverfi og gerist og gengur annars staðar. Stöðugleiki í peningamálum ræður úrslitum í því efni. Ekkert bendir til að gömlu hefðbundnu atvinnugreinarnar standi undir lífskjörum og velferð sem jafna má til þess sem gerist á Norðurlöndunum. Meira þarf til svo að það mark náist á ný. Hér þurfa einfaldlega að spretta upp ný fyrirtæki í alþjóðlega samkeppnishæfu umhverfi. Það umhverfi þarf að skapa. Þar má engan tíma missa. Framtíðarstefna í peningamálum er því ekkert aukaatriði eins og ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan reyna að telja fólkinu í landinu trú um. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á seðlabankafrumvarpið hefur lotið að því hvernig ríkisstjórnin tekur á fortíðarvanda peningastefnunnar. Að réttu lagi ætti hún að beinast að framtíðinni og því algjöra ráðleysi sem við blasir þegar spurt er á hvaða grunni reisa á nýtt fjármála- og peningakerfi. Fyrir utan að taka ekki á raunverulegum vanda peningastefnunnar eru alvarlegir gallar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Seðlabankastjóranum eru til dæmis ætluð of mikil völd við val á peningastefnunefnd. Atvinnulífið og háskólasamfélagið hafa enga aðkomu að bankaráðinu. Í ljósi skorts á samhæfingu stefnunnar í ríkisfjármálum og peningamálum væri aukheldur rétt að fela fjármálaráðherra yfirstjórn peningamálanna. Óvissan um framtíðarstefnuna er þó kjarni vandans. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Deila forsætisráðherra og bankastjórnar Seðlabankans er fortíðarvandi. Að réttu lagi hefði bankastjórnin átt að leysa það mál sjálf og ótilkvödd á sama tíma og stjórnendur viðskiptabankanna fóru frá. þá var gjaldmiðillinn hruninn og verðbólgumarkmiðið fokið út í veður og vind. Búsáhaldabyltinguna og ríkisstjórnarskiptin má rekja til þess að bankastjórnin skynjaði ekki þennan veruleika. Bréfaskipti forsætisráðherra við einstaka bankastjórnarmenn eru orðin að broslegum vindmylluslag. Þau benda til þess að forsætisráðherrann telji sig ekki hafa lögmæt rök til frávikningar. Frumvarp forsætisráðherra um breytt skipulag á yfirstjórn Seðlabankans leysir á hinn bóginn þann vanda. Frumvarpið staðfestir aftur á móti að nýja ríkisstjórnin er sama marki brennd og fyrri ríkisstjórn. Hún skilar auðu um þá stefnu sem fylgja á í peningamálum. Það stefnuleysi mun draga kreppuna á langinn og gera hana dýpri en vera þyrfti. Rétt eins og fortíðarvandinn hverfist um seðlabankastjórana snýst framtíðarvandinn um ríkisstjórnina. Bráðabirgðaráðstafanir án framtíðarmarkmiða duga skammt. Það sem verra er: seðlabankafrumvarpinu fylgja engar lýsingar á þeim skyndiráðstöfunum sem breyta eiga Seðlabankanum úr gjaldeyrisskömmtunarskrifstofu í seðlabanka á ný. Enn síður geymir frumvarpið hugmyndir um framtíðarstefnu. Ríkisstjórnin þarf að gera grein fyrir því hvernig hún ætlar að tryggja neytendum eðlilegt jafnvægisgengi og sannfæra innstæðueigendur í bönkunum á sama tíma að ástæðulaust sé að fara með peningana úr landi. Ætli ríkisstjórnin hins vegar að sætta sig við viðvarandi gjaldeyrishöft þarf að segja það. Ugglaust er enn unnt að ná meiri hagræðingu í sjávarútvegi. Hann stendur hins vegar ekki undir miklum vexti í framtíðinni. Á næstu árum eru því einnig takmörk sett hversu orkusala getur staðið undir miklum vexti. Öll önnur atvinnustarfsemi kallar á sambærilegt efnahagsumhverfi og gerist og gengur annars staðar. Stöðugleiki í peningamálum ræður úrslitum í því efni. Ekkert bendir til að gömlu hefðbundnu atvinnugreinarnar standi undir lífskjörum og velferð sem jafna má til þess sem gerist á Norðurlöndunum. Meira þarf til svo að það mark náist á ný. Hér þurfa einfaldlega að spretta upp ný fyrirtæki í alþjóðlega samkeppnishæfu umhverfi. Það umhverfi þarf að skapa. Þar má engan tíma missa. Framtíðarstefna í peningamálum er því ekkert aukaatriði eins og ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan reyna að telja fólkinu í landinu trú um. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á seðlabankafrumvarpið hefur lotið að því hvernig ríkisstjórnin tekur á fortíðarvanda peningastefnunnar. Að réttu lagi ætti hún að beinast að framtíðinni og því algjöra ráðleysi sem við blasir þegar spurt er á hvaða grunni reisa á nýtt fjármála- og peningakerfi. Fyrir utan að taka ekki á raunverulegum vanda peningastefnunnar eru alvarlegir gallar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Seðlabankastjóranum eru til dæmis ætluð of mikil völd við val á peningastefnunefnd. Atvinnulífið og háskólasamfélagið hafa enga aðkomu að bankaráðinu. Í ljósi skorts á samhæfingu stefnunnar í ríkisfjármálum og peningamálum væri aukheldur rétt að fela fjármálaráðherra yfirstjórn peningamálanna. Óvissan um framtíðarstefnuna er þó kjarni vandans.