Innlent

Tvísýnt um alla blaðaútgáfu

Ari Edwald forstjóri 365 segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hafi valdið vonbrigðum.
Ari Edwald forstjóri 365 segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hafi valdið vonbrigðum.

„Það er alveg ljóst að það er tvísýnt um alla blaðaútgáfu á Íslandi í dag," segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla. Hann segist þó ekki sjá annað fyrir sér en að 365 miðlar haldi áfram rekstri Fréttablaðsins.

Samkeppniseftirlitið ógilti í dag samruna Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, en í samningnum var gert ráð fyrir að Fréttablaðið og dreifingaraðili þess, Pósthúsið, rynni inn í Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Með því yrði 365 um leið stærsti hluthafinn í Árvakri. Ari segist hafa gert sér grein fyrir því um nokkra hríð að þetta yrði ekki samþykkt. Hins vegar séu það mikil vonbrigði hvað Samkeppniseftirlitið setji fram mikil og dýr skilyrði fyrir því að 365 og Árvakur vinni saman að prentun og dreifingu blaðanna. „Mér finnst þeir ganga allt of langt í að setja skilyrðin fyrir því samstarfi," segir Ari. Ari segir að með þeim skilyrðum sem sett voru hafi verið komið í veg fyrir ýmisskonar hagræðingu í rekstri 365 miðla.

Ari segir tvísýnt um alla blaðaútgáfu í dag. Menn hafi ekki verið að huga að samvinnu blaðanna að ástæðulausu. Hann segir þó miklu skipta fyrir framhaldið hversu skýr úrskurður Samkeppniseftirlitsins hafi verið varðandi þau skilyrði sem sett eru fyrir samvinnu. „Og ég sé ekki annað fyrir mér en að menn muni reyni að sjá hvort hægt sé að koma að þessu á einhvern annan hátt," segir Ari.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×