Í minnisblaði sem dreift var í viðskiptanefnd fyrr í dag um leið og nefndarmenn fengu hina umtöluðu Larosiere skýrslu í hendur, segir að skýrslan snúi ekki með beinum hætti að því frumvarpi um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem nú er til umfjöllunar í viðskiptanefnd.
Höfundar minnisblaðsins, sem eru starfsmenn í forsætis- viðskipta- og utanríkisráðuneytis, segja að ekki verði séð að skýrslan eigi að hafa áhrif á afgreiðslu frumvarpsins. Boðað hefur verið til fundar í viðskiptanefnd klukkan 18:15 í kvöld þar sem seðlabankafrumvarp verður á dagskrá.
Í minnisblaðinu segir að skýrslunni sé ætlað að fjalla um framtíð Evrópureglna um fjármálastarfsemi og eftirlit með fjármálastarfsemi. Líklegt er að skýrslan eigi eftir að hafa umtalsverð áhrif á umræðurnar í ESB um skýrari reglur um eftirlit með fjármálastarfsemi. Jafnframt á hún vafalítið eftir að hafa áhrif á það hvernig ESB vill nálgast alþjóðlega samvinnu milli eftirlitsaðila.
Höfundar minnisblaðsins stikla svo á stóru um innihald skýrslunnar og segja þeir ljóst að í henni séu mörg atriði sem skoða þurfi mun betur út frá íslenskum hagsmunum og hvernig einstakar tillögur og hugmyndir í henni geti varðað Ísland og EES samninginn.
„Tillögurnar endurspegla alvarleika fjármálakreppunnar og þann gífurlega vanda sem við er að etja," segir í minnisblaðinu um leið og bent er á að löggjafarferlið í ESB taki sinn tíma og því sé óvíst hvenær tillögur nefndarinnar verði að raunveruleika.
„Skýrslan snýr ekki með beinum hætti að því frumvarpi um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem nú er til umfjöllunar í viðskiptanefnd og verður ekki séð að hún eigi að hafa áhrif á afgreiðslu þess," segir að lokum.