Frumvarp um breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands var samþykkt frá Alþingi nú á sjötta tímanum og verður væntanlega að lögum á morgun. Með frumvarpinu eru stöður seðlabankastjóranna Davíðs Oddssonar og Eiríks Guðnasonar lagðar niður og hætta þeir því störfum. Nýr bankastjóri verður að öllum líkindum settur til bráðabirgða á morgun og verður staða seðlabankastjóra svo auglýst. Eftir að búið verður að auglýsa stöðuna verður nýr bankastjóri skipaður til lengri tíma.
Sjálfstæðismenn lögðu til breytingatillögu um að Alþingi þyrfti að samþykkja tillögu forsætisráðherra um skipan nýs bankastjóra en sú tillaga var felld með atkvæðum stjórnarliða og Framsóknarflokksins.
Í nýjum lögum er gert ráð fyrir svokallaðri peningastefnunefnd sem mun taka ákvörðun um peningastefnu bankans og samkvæmt breytingartillögu sem lögð var fram á fundi viðskiptanefndar í gær mun nefndin einnig þurfa að gefa viðvaranir ef hætta steðjar að hagkerfinu.
Frumvarpið var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 18.
