Viðskipti innlent

Leita að 50 milljónum dollara í útrásarverkefni

Breki Logason skrifar
Guðmundur Þóroddsson stofnaði Reykjavík Geothermal í ágúst í fyrra.
Guðmundur Þóroddsson stofnaði Reykjavík Geothermal í ágúst í fyrra.

Reykjavík Geothermal sem Guðmundur Þóroddsson fyrrum forstjóri REI og Orkuveitunnar stofnaði í ágúst í fyrra leitar nú að 50 milljónum dollara frá alþjóðlegum fjárfestum. Gunnar Örn Gunnarsson forstjóri fyrritækisins segir ætlunina að setja peningana í verkefni í þremur löndum um þróun og byggingu virkjana. Hann segir fyrirtækið gera sér grein fyrir að upphæðin sé stór en hún er hugsuð yfir fimm ára tímabil.

„Við erum að reyna að koma á framfæri þessari íslensku þekkingu í jarðhita og teljum að þessi hópur hafi allar forsendur til þesst að geta leitt slíka útrás. Við munum auðvitað ekki vinna verkefnin en til þess að koma þessu af stað með vitrænum hætti þarf mikla peninga og þessvegna er þessi upphæð sett fram," segir Gunnar.

Fyrirtækið var stofnað eftir REI-ævintýrið svokallaða og starfsmenn fyrirtækisins eru allir fyrrum starfsmenn REI. Gunnar segir að umræddar 50 milljónir dollara myndu gera það að verkum að hægt væri að vinna á þremur svæðum úti í heimi við þróun, rannsóknir og byggingu vrikjana.

„Við erum ekkert að segja hvar eða á hvaða svæðum þetta er. Það kemur bara í ljós ef við fáum fjármagn," segir Gunnar.

Hann bendir á að á sínum tíma hafi erlendir aðilar sýnt REI mikinn áhuga en ekki hafi náðst samstaða meðal íslenskra stjórnmálamanna um að fara í það verkefni. Hann segir þó ganga ágætlega að ræða við erlenda fjárfesta sem láta efnahagshrunið hér á landi sig litlu skipta.

„Menn eru ekkert að rugla saman fjármálakreppunni og okkar fyrirtæki. Við búum fyrst og fremst yfir mikilli þekkingu og reynslu og erum þekktir fyrir það að láta verkin tala," segir Gunnar og bendir á að Guðmundur Þóroddsson hafi verið einn af forystumönnum þriðja stærsta jarðhitafyrirtækis heims, sem sé Orkuveita Reykjavíkur.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er mjög stór upphæð. Hún er hinsvegar hugsuð inn í verkefnin á fimm ára tímabili og til reksturs á því batteríi. Við höfum átt fundi með ýmsum aðilum en hvenær nákvæmlega eða hvort þetta fari í gang verður tíminn að leiða í ljós," segir Gunnar.

„Þetta þýðir hinsvegar að við erum fyrirtæki sem fjármögnum okkur sjálfir því það er ekki til neitt fé í landinu. Við verðum því að reyna að standa í lappirnar og gera okkar besta," segir Gunnar að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×