Innlent

Segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist

„Heilbrigðiskerfið brást algerlega," sagði Telma Magnúsdóttir ekkja sem missti mann sinn, Björgvin Björgvinsson, úr húðkrabbameini fyrir tæpu ári síðan. Telma sagði sögu sína í Íslandi í dag í kvöld.

Björgvin hafði farið í læknisaðgerð árið 2001 þar sem sortuæxli, sem er tegund af húðkrabbameini, hafði fundist á bakinu á honum. Hann gekkst undir skurðaðgerð og var sagt að koma í árlega skoðun eftir það. Hann fór árlega í skoðun en árið 2005 var honum sagt að hann væri laus við meinið. Í febrúar 2008 fann hann hins vegar fyir verkjum í maga. Við ítarlega læknisskoðun kom í ljós að sortuæxlið hafði dreift sér og meinvarpa í maganum væri af völdum þess. Krabbameinslæknir sagði svo Björgvin að sortuæxlið hefði dreift sér um líkamann allt frá árinu 2001. Björgvin lést skömmu síðar.

Telma segist ætla að kæra málið. „Því að ég vil að það sé einhver dreginn til ábyrgðar," segir Telma og bendir á að það sé ótækt að sagt sé við sjúkling árið 2005 að hann sé heill heilsu og þremur árum seinna sé hann dáinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×