Viðskipti innlent

Fengu 300 milljón króna lán fyrir snekkju

Bakkabræður fengu ríflega þrjú hundruð milljóna króna lán frá Kaupþingi í tengslum við lúxussnekkju þeirra Mariu. Snekkjan var áður í eigu Giorgio Armani.

Í lánabók Kaupþings frá 30. júní í fyrra sem Morgunblaðið birti í gær má sjá að lán Kaupþings til Bakkabræðra, þeirra Lýðs og Ágústs Guðmundssona, námu 169 milljörðum króna. Inni í þeirri tölu er 315 milljóna króna lán til félags að nafni My Mariu Ltd. Bræðurnir eiga snekkju sem heitir Mariu og gerast þær varla glæsilegri. Hún er frá árinu 2003 og var hönnuð af fyrri eiganda, sjálfum Girorgio Armani. Sex svefnherbergi eru á snekkjunni en hún er 50 metra löng. Þá vinna 10 starfsmenn um borð. Á hinum ýmsu vefsíðum er snekkjan boðin til leigu. Gangverðið er í kringum 25 milljónir íslenskra króna fyrir eina viku. Þar er fólki sagt að búast við engu minna en algjörri fullkomnun. Áætlað er að snekkjan kosti ekki undir tveimur milljörðum króna.

Fréttastofa reyndi að ná sambandi við Lýð og Ágúst Guðmundssyni án árangurs. Ekki fengust upplýsingar um hvort félagið My Mariu ltd er í kringum rekstur snekkjunnar eða kaup á henni. Lánið var skilið eftir í gamla Kaupþingi þar sem My Mariu Ltd. er erlent félag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×