Innlent

Raforku Sunnlendinga ekki hleypt til Suðurnesja

Ólafur Áki Ragnarsson.
Ólafur Áki Ragnarsson.
Sveitarfélagið Ölfus hefur óvænt sett áform um Helguvíkurálver í uppnám og leggst nú alfarið gegn því að háspennulína verði lögð frá Hellisheiðarvirkjun til Suðurnesja. Sveitarfélagið vill frekar að orkan verði notuð til uppbyggingar í Þorlákshöfn.

Sveitarfélagið Ölfus hefur um árabil boðið iðnaðarlóðir við Þorlákshöfn undir stóriðju og átt í viðræðum við hin ýmsu fyrirtæki, en án þess að nokkuð hafi verið byggt upp.

Ölfusingar sjá nú álver rísa í Helguvík en rafmagnið þangað á að hluta að koma frá virkjunum í þeirra eigin sveitarfélagi á Hellisheiði. Þeir orkuflutningar kalla á lagningu nýrrar háspennulínu frá Henglinum til Helguvíkur, en sú lína mun liggja innan sveitarfélagamarka Ölfuss á kafla milli Kolviðarhóls og Sandskeiðs.

Raflína verður hins vegar ekki lögð án leyfis viðkomandi sveitarfélags og bæjarstjórn Ölfuss hefur nú samþykkt að leggjast gegn línunni. Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri segir að ástæðan sé fyrst og fremst atvinnumál. Hann telur að línan til Helguvíkur verði banabiti áforma um orkufrekan iðnað á Suðurlandi enda opnist með henni möguleikar til að flytja alla raforku Þjórsárvirkjana til Suðurnesja.

Hann telur að kostnaður Landsnets við Suðurnesjalínu verði það mikill að ekki verði svigrúm til að leggja jafnframt línu frá Hellisheiði til Þorlákshafnar. Þetta muni leiða til þess að öll atvinnuppbygging verði á Suðurnesjum, álver, netþjónabú og sólarkísilverksmiðja, á sama tíma og Suðurland verði afskipt þar sem 900 manns séu nú atvinnulausir. Sveitarfélagið Ölfuss leggist því gegn því að orka frá virkjunum á Hellisheiði fari til Suðurnesja.

Aðspurður hvort þetta geti ekki kallast fjárkúgun, segir Ólafur Áki svo ekki vera, - þetta sé þeirra aðgerð til að orkan nýtist til atvinnuppbyggingar í heimabyggð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×