Innlent

Þingkona sakar vélhjólasamtök um skipulagðar árásir

Helga Sigrún Harðardóttir er ósátt við meinta aðför í prófkjöri.
Helga Sigrún Harðardóttir er ósátt við meinta aðför í prófkjöri.

Þingkona Framsóknarflokksins, Helga Sigrún Harðardóttir, sakar Sniglanna meðal annars um að hafa látið misnota sig í annarlegum tilgangi á heimasíðu sinni. Hún hefur takmarkað aðgang að athugasemdarkerfinu vegna þessa.

Í færslu sem hún birti í gær skrifar hún:

„Vegna árása sem skipulagðar hafa verið á þessa síðu að undanförnu þar sem m.a. meðlimir Bifhjólasamtaka lýðveldisins - Sniglanna - hafa látið misnota sig í annarlegum tilgangi m.a. með því að gera mér upp skoðanir og ausa úr takmörkuðum lýsingarorðabrunni sínum yfir mig og aðra sem hér hafa gert heiðarlega tilraun til að tjá sig með málefnalegum hætti, hef ég nú takmarkað aðgang að athugasemdakerfi mínu."

Þegar haft var samband við Helgu Sigrúnu vildi hún ekki tjá sig um málið en sagðist standa við bloggfærsluna.

Helga Sigrún sóttist eftir fyrsta sætinu Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi en bar ósigur gegn Siv Friðleifsdóttur, sem varði fyrsta sætið í kjördæminu.

Á bloggi Helgu segist hún hafa orðið fyrir skipulögðum árásum vélhjólasamtaka en tilurð þess mun vera pistill sem hún skrifaði fyrir tveimur árum síðan, „um þá sem leggja líf og limi í hættu, bæði sína eigin og annarra, með ofsaakstri" eins og hún orðar það á heimasíðu sinni.

Í lok færslunnar ritar hún: „PS. Mér dettur hins vegar ekki í hug að þessar árásir hafi tengst prófkjöri framsóknarmanna í SV kjördæmi um síðustu helgi með nokkrum hætti!!"

Þess má geta að Siv Friðleifsdóttir sækir stuðning sinn meðal annars í vélhjólasamtökin Sniglanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×