Innlent

Snjóflóð féll vegna vélsleðamanns á Ólafsfirði

Frá Ólafsfirði
Frá Ólafsfirði MYND ÚR SAFNI

Fimm til sex hundruð metra langt snjóflóð féll úr fjallinu fyrir ofan Ólafsfjörð í gær. Setja á upp snjóflóðavarnargarð sem verja á Dvalarheimilið Hólabrekku en flóðið fór um fimm hundruð metra sunnar en varnargarðurinn á að vera. Jón Konráðsson yfirlögregluþjónn á Ólafsfirði segir vélsleðamann hafa komið flóðin af stað en enginn var í teljanlegri hættu.

„Þetta gerist með þeim hætti að gamla lagið sem er undir er svo hart og það er kominn mikill snjór þar ofan á. Síðan keyrir vélsleði upp fjallið og er að leika sér á svipuðum slóðum og þeir hafa verið að fara. Síðan þegar hann er kominn nánast upp undir brúnina þá rennur stór fleki af stað," segir Jón en flóðið fer fimm til sex hundruð metra niður fjallið og er um hundrað metra breitt að sögn Jóns. Þykktin var þó ekki nema um tveir metrar að hans sögn.

Flóðið staðnæmdist um hundrað metra frá upplýstri skíðagöngubraut sem liggur í fjallinu. „Maður hefur aldrei séð nein flóð fara þarna með þessum hætti," segir Jón og telur að komandi snjóflóðavarnargarður hafi sannað tilveru sína.

Hann segir elstu menn ekki muna eftir flóði sem þessu en það sem hafi gerst sé að veðráttan hafi breyst mikið síðustu árin.

„Það er lítill snjór hérna framan af vetri síðan fer allt á kaf fyrir viku síðan og undirlagið er þá hart og auðvelt fyrir snjóinn að fara af stað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×