Innlent

Lúðvík Geirsson: Dómur héraðsdóms er fagnaðarefni

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

„Þetta er fullnaðarsigur, nákvæmlega í anda þess sem ég átti alla tíð von á," segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar um nýfallinn dóm í máli bæjarins gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Bærinn vildi að OR stæði við gerðan samning um sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja og á þau sjónarmið féllst dómarinn í morgun. Orkuveitan þarf því að greiða bænum 7,6 milljarða króna auk dráttarvaxta. „Í okkar huga hefur þetta verið skýrt. Við gengum frá lögmætum samningi og gengum að tilboði Orkuveitunnar. Það var þeirra að standa við það samkomulag. Dómurinn er afdráttarlaus í því og ég fagna því að þetta sé út af borðinu."

Lúðvík segir að búast megi við því að Orkuveitan áfrýi málinu til Hæstaréttar en að það breyti litlu. „Mér finnst dómur héraðsdóms vera svo skýr og afdráttarlaus að það eigi ekki að breyta neinu."

Lúðvík segir að það komi bænum afar vel að málinu skuli vera lokið. „Það hefur auðvitað verið erfitt fyrir okkur að hafa þetta mál í uppnámi. Þetta er hluti af eigum sveitarfélagsins og heildartölur í þessu eru á níunda milljarð króna þegar dráttarvextir eru teknir með. Auðvitað skiptir það verulegu máli, sérstaklega þegar við höfum þurft að greiða út stórar fjárhæðir í innskiluðum lóðum sem enginn átti von á. Þetta styrkir okkar stöðu á allan hátt og er fagnaðarefni," segir Lúðvík að lokum.




Tengdar fréttir

Orkuveitan þarf að greiða Hafnarfjarðarbæ 7,6 milljarða

Hafnarfjarðarbær hafði betur í dag í dómsmáli gegn Orkuveitu Reykjavíkur og þarf Orkuveitan að greiða bæjarfélaginu rúma 7,6 milljarða króna auk dráttarvaxta, gegn afhendingu á hlutum í HS Orku hf. og HS Veitum hf., eða Hitaveitu Suðurnesja, auk 1500 þúsund króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×