Innlent

Seðlabankastjóri þekkti ekki cad-hlutfall

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og fyrrum stjórnarmaður í bankaráði Seðlabankans segir forsætisráðherra sennilega hafa brotið lög þegar hún réði norskan stjórnmálamann í embætti seðlabankastjóra. Þetta kemur fram í grein sem Hannes skrifar í Morgunblaðið í dag en þar segir hann einnig frá því að seðlabankastjórinn hafi ekki vitað hvað svokallað cad-hlutfall fjámálastofnana væri og sé bæði ákvörðunarfælinn og taugaóstyrkur.

„Maður þessi kvaðst aðspurður ekki muna, hvenær hann var beðinn að taka að sér embættið. Sé hann tekinn trúanlegur um það, þá hefur hann varla gáfur til að sinna starfinu. Nýlega var hann á fundi í Seðlabankanum. Þá barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Maðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað þetta var," segir í grein Hannesar.

Seðlabankastjóra kallar hann síðan fjallamann sem hafi ekki þorað að liðsinna Straumi, Spron og Sparisjóðabankanum, þegar þessi fyrirtæki lentu í fyrirsjáanlegum, en tímabundnum erfiðleikum.

„Þessi bráðabirgðaseðlabankastjóri minnihlutastjórnar veldur því með ákvörðunarfælni sinni og taugaóstyrk, að mörg hundurð manns missa hér atvinnuna, traust á Íslandi minnkar enn erlendis og lánalínur lokast."

Þá segir Hannes að ógeðfelldur blær sé á allri framgöngu ráðamanna í málinu. Hann segir það hafa veirð mikil mistök að knýja þessi fyrirtæki í þrot og bæta þannig gráu ofan á svart.

„Sennilega er þetta embættisverk hins norska stjórnmálamanns ólöglegt, eins og hann sjálfur. En þótt sjálfsagt sé að láta á það reyna fyrir dómstólum, er tjónið orðið og verður ekki bætt. Og hrægammarnir sveima yfir sviðinni jörð."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×