Innlent

Barnaklámskennari þarf að hætta kennslu

Turntölva með áttatíu ljósmyndum og rúmlega það af hreyfimyndum sem sýndu börn í klámfengnu ljósi voru gerðar upptækar.
Turntölva með áttatíu ljósmyndum og rúmlega það af hreyfimyndum sem sýndu börn í klámfengnu ljósi voru gerðar upptækar.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla þá er ólöglegt að ráða kennara sem hefur brotið hegningarlög sem varða kynferðisbrot. Ekkert segir í lögum varðandi kennara sem brjóta af sér á meðan þeir starfa sem slíkir eins og enskukennarinn sem var dæmdur fyrr í morgun fyrir vörslu barnakláms.

Samkvæmt menntamálaráðuenytinu þá er hægt að reka hann í ljósi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir að hafi starfsmaður játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda, þá skal honum vikið úr starfi fyrirvaralaust.

Málinu lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun með dómssátt en hann þarf að greiða 250 þúsund krónur í sekt. Maðurinn hafði áttatíu ljósmyndir og rúmlega það af hreyfimyndum sem sýndu börn í klámfengnum eða kynferðislegum stellingum. Að auki var maðurinn með VHS spólu á heimili sínu sem reyndist innihalda barnaklám. Hann játaði brot sín.

Formaður félags framhaldsskólakennara, Aðalheiður Steingrímsdóttir, segir siðareglur til staðar af hálfu kennara sem ætlast er til að farið sé eftir. Ekkert tekur á kynferðisbrotum.

Aðalheiður segir enga sérstaka verkferla til staðar ef brot af slíku tagi koma upp, heldur bendir hún á lög um framhaldsskólakennara varðandi kynferðisbrot. Hún segir það hlutverk menntamálaráðuneytis að svara frekar fyrir það.

Þegar haft var samband við skólameistara skólans sem maðurinn kennir við sagðist hann ekki vilja tjá sig um málefni einstakra kennara, en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur manninum ekki verið vikið úr starfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×