Innlent

Vandséð að umsókn Breta þjóni nokkrum tilgangi

Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur.
Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur.

Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu, segir vandséð að einhliða greinargerðir Breta og Íra varðandi Hatton-Rockall svæðið þjóni nokkrum tilgangi. Þjóðirnar hafa lagt inn umsókn til Sameinuðu Þjóðanna um full yfirráð yfir svæðinu sem talið er ríkgt af olíu en það liggur mitt á milli Bretlands og Íslands í Norður-Atlantshafinu.

„Vandséð er að einhliða greinargerðir Breta og Íra þjóni nokkrum tilgangi," segir Tómas. „Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ekki vald til að fjalla um greinargerðir einstakra ríkja um umdeild hafsvæði, nema með samþykki allra deiluaðila. Fyrir liggur að hvorki Ísland né Danmörk fyrir hönd Færeyja munu veita slíkt samþykki og að nefndin mun því alls ekki fjalla um greinargerðir Bretlands og Írlands."

Áhersla lögð á samkomulag um skiptingu landgrunns

Tómas segir að af Íslands hálfu sé lögð áhersla á að hinir fjórir aðilar Hatton Rockall-málsins, þ.e. Ísland, Bretland, Írland og Danmörk f.h. Færeyja, nái fyrst samkomulagi um skiptingu landgrunns á Hatton Rockall-svæðinu. „Að því loknu leggi þeir síðan sameiginlega greinargerð fyrir landgrunnsnefndina um ytri mörk landgrunns á svæðinu, þ.e. mörkin milli landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnssvæðisins sem er þar fyrir utan," segir Tómas og bætir því við að næsti fundur ríkjanna fjögurra um Hatton Rockall- málið verði haldinn í Þórshöfn í júní.

„Ísland mun skila greinargerð til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna áður en frestur til þess rennur út 13. maí nk. Greinargerðin mun annars vegar ná til landgrunns í suðurhluta Síldarsmugunnar og hins vegar á Reykjaneshrygg. Hún mun að svo stöddu ekki ná til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis, enda gildir umræddur tímafrestur ekki um umdeild svæði," segir Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins að lokum.




Tengdar fréttir

Stefnir í stríð milli Íslands og Bretlands um Rockall svæðið

Bretland hefur lagt inn umsókn hjá Sameinuðu þjóðunum um full yfiráð yfir Hatton-Rockall svæðinu í Norður Atlantshafi. Þar með stefni í diplómatískt stríð milli Íslands og Færeyja annarsvegar og Bretlands hinsvegar. Írland átti einnig aðild að samningaviðræðunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×