Skoðun

Stríðið gegn Íslandi

Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Afleiðingarnar eru jafn banvænar þrátt fyrir það. Fleiri verða veikir, lifa í örvæntingu og deyja fyrir aldur fram ef þjóðin neitar ekki að greiða til baka megnið af þeim lánum sem prangað hefur verið inn á hana á síðustu átta árum. En leiðin til bjargar er þyrnum stráð. Voldugir skuldunautar á borð við Bandaríkin og Bretland munu siga áróðursmeisturum sínum, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum á Íslendinga og krefjast þess að þeir verði hnepptir í skuldafangelsi með því að þvinga þá til að greiða skuldir sem þessar þjóðir myndu aldrei greiða sjálfar.

Til að komast út úr skuldafeninu verða Íslendingar að átta sig á hvers konar efnahagsástand sjálfseyðingar íslenskir bankamenn hafa skapað. Þrátt fyrir að hafa eytt nærri hálfri öld í að rannsaka þjóðir í erfiðri skuldastöðu hef ég sjaldan eða aldrei séð neitt í líkingu við ástandið á Íslandi. Hér á landi hafa bankarnir steypt sér í svo gríðarlegar skuldir að verðgildi krónunnar mun rýrna til frambúðar og leiða af sér verðbólgu næstu áratugina.

Skuldaleikurinn

Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með „ódýrum peningum". Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða.

Ísland hefur snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánadrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.

Það er eðlilegt að fólk greiði lán sem tekin hafa verið á heiðarlegan hátt. Venjulega er gert ráð fyrir að fólk taki lán - og bankar láni - til vænlegra fjárfestinga, sem skili arði sem síðan er hægt að nýta til að greiða lánið til baka auk vaxta. Þannig hafa bankar starfað um aldaraðir og þannig hefur orðið til ímynd hins varkára bankamanns sem neitar fjölmörgum þeirra sem sækjast eftir lánum frá honum.

Þannig var það að minnsta kosti einu sinni. Fáir sáu fyrir sér að aðgangur að lánsfé yrði svo greiður að þau vanskil sem við sjáum í dag væru óhjákvæmileg. Í Bandaríkjunum eru þannig þriðjungur þeirra sem tóku húsnæðislán með neikvæða eiginfjárstöðu. Það þýðir að lánin eru orðin hærri en virði eignanna sem þau hvíla á.

Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda. Þetta gildir þó aðeins um litlu þjóðirnar. Þær þjóðir sem hæst hrópa á Íslendinga að greiða lán spákaupmannanna eru undanskildar. Þar eru fremstar í flokki þær þjóðir sem eru skuldsettastar, Bandaríkin og Bretland, undir stjórn manna sem dytti aldrei í hug að leggja slíkar byrðar á eigin þegna. Um leið og þessar þjóðir lækka skatta og auka á fjarlagahallann reyna þær að kúga peninga út úr smærri og veikburða þjóðum, líkt og þær stunduðu gagnvart Þriðjaheimsríkjum á 9. og 10. áratug síðustu aldar.

Fjármálastríðið

Á síðustu árum hefur Ísland orðið fyrir árásum alþjóðlegra lánadrottna. Þeir hafa náð að sannfæra hóp lukkuriddara um að leiðin til auðs og hagvaxtar væri í skuldsetningu, en ekki ráðdeild. Bankar og spákaupmenn í innsta hring alþjóðafjármálakerfisins höfðu það að meginstarfi að selja skuldir og þurftu að búa sig undir það efnahagslega hrun sem sagan sýnir að fylgi óhjákvæmilega í kjölfar slíkrar ofurskuldsetningar. Það gerðu þeir með því að sá fræjum hugmyndafræði sem leit á keðjuverkandi skuldsetningu sem góða hagstjórn.

Stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum er að koma á stöðugleika og forðast kreppu með því að færa niður skuldir til jafns við lækkandi markaðsverð, en ekki síður að ná greiðslubyrði húsnæðislána niður á viðráðanlegt stig, þ.e. innan við 32% af tekjum heimilanna. Í öðrum löndum er einnig verið að færa niður skuldir svo fólk og fyrirtæki geti staðið í skilum. Á Íslandi er verðtryggingin hins vegar að belgja út skuldir og steypa húseigendum í neikvæða eiginfjárstöðu.

Það fyrsta sem Íslendingar verða að gera er að átta sig á að landið hefur orðið fyrir efnahagslegri árás útlendinga, sem studdir voru af íslenskum bankamönnum. Til að hafa sigur reyndu þessir lánadrottnar að sannfæra þjóðina um að skuldir væru framleiðsluhvetjandi og að hagkerfið efldist, þar sem verðmæti þess ykist - þ.e. eignir yxu umfram skuldir. Þannig var gert ráð fyrir að verð myndi aldrei lækka og við myndum aldrei standa eftir með skuldirnar einar og neikvæða eiginfjárstöðu. Þeir gerðu sitt besta til að sannfæra þjóðina um að það væri slys sem gerðist aðeins einu sinni á öld eða svo, en ekki óhjákvæmileg afleiðing gríðarlegrar skuldsetningar með samsettum vöxtum án tekjuaukningar sem stæði undir vaxtagreiðslum.

Þessari hugmyndafræði er nú fylgt eftir með því að telja íslenskum almenningi trú um að honum standi ekkert annað til boða en að borga skuldirnar sem örfáir einstaklingar hafa steypt sér í, skuldir sem safna vöxtum að öðrum kosti. Þjóðin þarf einfaldlega að gera sér grein fyrir því að þær skuldir sem krafist er að hún greiði, eru meiri en hún getur ráðið við.

Hvernig eiga Íslendingar að borga?

Íslendingar verða að gera sér grein fyrir því fyrr en seinna að ekki er hægt að greiða þessar skuldir og um leið halda uppi sanngjörnu samfélagi. Óhjákvæmilegt er að afskrifa skuldir á einhvern hátt. Hversu mikið er ekki hægt að segja til um fyrr en vitað er hver skuldar hverjum og hversu mikið. En Ísland er sjálfstætt ríki og getur sett hver þau efnahagslög sem því hentar, svo framarlega sem þau mismuna ekki fólki eftir þjóðerni.

Alþjóðlegir lánadrottnar munu mótmæla harðlega. Markmið þeirra er að halda fjármálaheiminum utan alþjóðalaga og gera innheimtu skulda óháða lýðræðislegum reglum. Þannig reyna alþjóðlegar fjármálastofnanir að hindra stjórnvöld í að koma böndum á óhefta lánastarfsemi og eignaupptöku. Málpípur fjármagnseigenda saka þannig stjórnvöld um að hefta hinn frjálsa markað, þegar þau eru í raun eina aflið sem getur komið í veg fyrir að heilu þjóðirnar verði hnepptar í skuldafangelsi.

Með því að fara fram á greiningu á því hver skuldar hverjum hvað getur Ísland komið boltanum í fang lánadrottnanna og látið þeim eftir að svara því hvernig í ósköpunum Íslendingar eigi að fara að því að borga og hverjar efnahagslegar afleiðingar þess verði. Hvernig geta Íslendingar borgað á næstu árum án þess að landsmenn tapi unnvörpum eignum sínum og félagslega kerfið verði lagt í rúst? Hvernig geta Íslendingar greitt skuldir sínar án þess að keyra sig í þrot, leggja niður þjóðfélag félagslegs jafnréttis og koma hér á samfélagi örfárra ofurríkra lánadrottna og svo örsnauðs almennings? Það er raunveruleg hætta á að hér myndist ný stétt fjármagnseigenda sem stjórna muni landinu næstu öldina eða svo.

Íslendingar hafa verið prettaðir. Eiga þeir að líta á það sem skyldu sína að greiða þjóðum sem hafa ekki í hyggju að greiða nokkurn tíma sínar eigin skuldir? Svo lánadrottnar fái greitt þurfa þeir að sannfæra skuldunauta sína um að þeir geti í raun og veru borgað, þ.e. borgað án þess að leggja samfélagið í rúst, selja auðlindir sínar eða koma á gríðarlegri stéttaskiptingu fjármagnseigenda og skuldara.

Lánin eða lífið?

Íslendingar verða að líta til langs tíma. Hvernig á efnahagskerfið að lifa af og vaxa til framtíðar? Verðtryggingu lána verður að afnema. Gjaldeyrislán verður að færa yfir í krónur á lágum, óverðtryggðum vöxtum eða afskrifa að hluta eða öllu leyti. Markmiðið á að vera að fella niður skuldir sem valda efnahagslegu tjóni.

Leiðarljósið er heilbrigt efnahagskerfi í heild sinni. Þeir sem heimta mest eru ekki þeir sem skulda mest, heldur þeir sem hafa lánað mest. Markmið þeirra er að tryggja völd sín í samfélaginu. Umfram allt vilja þeir hámarka vald skulda umfram verðmætasköpun. Þess vegna er verðtrygging lána notuð til að tryggja að bankarnir hagnist á hruni efnahagslífsins, en ekki almenningur, sem greiða þarf jafnt skuldirnar sem og kostnaðinn af hækkandi verðlagi og hruni krónunnar. Lánadrottnar um allan heim eru í óða önn að færa niður skuldir í takt við lækkandi fasteignaverð. Á Íslandi hafa bankarnir hins vegar fengið að hækka skuldabyrðina um 14% á síðasta ári, á meðan fasteignaverð hefur lækkað um 21%! Því verra sem efnahagsástandið er, því sterkari eru lánveitendurnir. Þetta er ávísun á efnahagslegt sjálfsmorð þar sem dýpkandi kreppa hneppir æ fleiri í skuldafangelsi.

Ísland getur tekið forystu og orðið fyrirmynd annarra þjóða í efnahagslegu jafnrétti. Aldrei hefur verið betra tækifæri til að taka afstöðu til þess um hvað standa á vörð - óyfirstíganlegar skuldir eða framtíð íslensks samfélags? Munu stjórnvöld verja þegna sína fyrir afætum fjármálaheimsins, eða munu þau færa þeim íslenska hagkerfið á silfurfati? Það er spurningin sem íslensk stjórnvöld verða að svara.

Höfundur er sérfræðingur í alþjóðafjármálum, hefur verið ráðgjafi Hvíta hússins, bandaríska innanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytisins og vinnur að tillögu að nýrri skattalöggjöf fyrir Bandaríkin. Þetta er fyrri greinin af tveimur eftir Hudson sem birtast í Fréttablaðinu. Sú seinni birtist innan fárra daga.




Skoðun

Sjá meira


×