Innlent

Frumvarp um álver í Helguvík samþykkt - þinginu lokið

Frá Alþingi
Frá Alþingi
Frumvarp um heimild til samninga um álver í Helguvík var samþykkt á Alþingi nú í kvöld með þrjátíu og átta atkvæðum gegn níu en þrettán þingmenn voru fjarverandi. Þegar búið var að samþykkja frumvarpið var þinginu slitið af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, bjallan glumdi og þingmenn féllust í faðma.

Þingmenn Vinstri grænna greiddu allir atkvæði á móti frumvarpinu en það gerði Mörður Árnason þingmaður Samfylkingar einnig. Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra sat hjá.

Í lok þingsins tók Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis til máls og hvatti alþingismenn og stjórnmálasamtök til þess að halda í góða og heiðarlega kosningabaráttu sem væri þingheimi til sóma. Hann þakkaði starfsfólki þingsins sem og þingmönnum samstarfið.

Því næst tók Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins til máls og þakkaði hlýjar kveðjur í sinn garð. Hún þakkaði starfsfólki þingsins sérstaklega það æðruleysi sem það sýndi þegar atburðirnir fyrir utan Alþingi stóðu sem hæst í janúar. Hún þakkaði þeim þingmönnum sem eru að láta af störfum samstarfið og óskaði þeim alls hins besta á nýjum vettvangi.

Arnbjörg sagði að kosningabaráttan sem nú væri framundan hafi verið gefinn óvernju stuttur tími. Hún vonaði hinsvegar að sú barátta yrði drengileg og þjóðinni allri til heilla. Hún bað þingmenn síðan að rísa úr sætum ef þeir tækju undir þessi orð hennar. Þingheimur reis úr sætum.

Því næst las Jóhanna Sigurðardóttir upp bréf sem hún ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni forseta rituðu í gær um að fresta þingstörfum. Hún óskaði þingmönnum og starfsmönum þingsins allra heilla og sagði þinginu frestað. Þá gall bjallan og þingmenn risu úr sætum og föðmuðu hvorn annan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×