Innlent

ÖSE gagnrýnir ójafnt atkvæðavægi milli kjördæma

Allt í sóma Ahrens, til hægri, ásamt félaga sínum úr eftirlitsteyminu, ræðir við starfsmenn kjörstjórnar í Ráðhúsinu.
Fréttablaðið/daníel
Allt í sóma Ahrens, til hægri, ásamt félaga sínum úr eftirlitsteyminu, ræðir við starfsmenn kjörstjórnar í Ráðhúsinu. Fréttablaðið/daníel

„Við bjuggumst við óheftum og lýðræðislegum kosningum, og sjálfur hef ég ekkert séð sem ekki stenst þær vonir," segir Geert Heinrich Ahrens, yfirmaður kosningaeftirlits Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) hérlendis.

Tíu fulltrúar ÖSE fylgdust með framkvæmd alþingiskosninganna um allt land á laugardag. Slíkt eftir­lit er afar smátt í sniðum, að sögn Ahrens.

„Okkar hlutverk var í raun að kanna hvort niðurstöður kosninganna endurspegli raunverulegan vilja þjóðarinnar, og ég get ekki séð að nokkuð hreki það," segir Ahrens.

Ahrens nefnir þó ójafnt atkvæðavægi á milli kjördæma sem eitt af þeim atriðum sem þarf að leysa úr. „Þetta er eitthvað sem Íslendingar hafa unnið að í áratugi og það er stöðug umræða hér um atkvæðajafnvægið," segir hann. „Eðlilegast væri að hver kjósandi myndi vega jafnt við útreikning á þingsætum," segir Ahrens.

Hann tekur þó fram að þetta sé einungis almenn athugasemd. Það sé alfarið í höndum íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort breytingar verða gerðar á kerfinu, til dæmis hvort sameina eigi öll kjördæmin í eitt. „Það er einn mikilvægasti réttur hvers sjálfstæðs ríkis að ákveða sjálft hvers konar kosningakerfi er notað." - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×