Innlent

Fastaeignafélag krefur Seltjarnarnesbæ um milljarð

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Fasteignafélagið Þyrping hefur stefnt Seltjarnarnesbæ og krefst ógildingar á kaupsamningum sem félagið gerði við bæinn. Krafa Þyrpingar hljóðar upp á rúman milljarð króna.

Málið á rætur sínar að rekja til samnings sem Fasteignafélagið Þyrping gerði við Seltjarnarnesbæ árið 2006 um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis út á Gróttu. Eftir að hafa gert samninginn hóf Þyrping að kaupa upp land og fasteignir á svæðinu. Þyrping keypti meðal annars byggingarland og tvær fasteignir af Seltjarnarnesbæ fyrir alls um 635 milljónir króna.

En þá fóru málin að flækjast. Allar tillögur Þyrpingar um skipulag svæðisins voru felldar í bæjarstjórn þrátt fyrir að þær rúmuðust innan aðalskipulags eins og samkomulag Þyrpingar og Seltjarnarnesbæjar kvað á um. Að lokum lagði bæjarstjórnin til sitt eigið skipulag sem fól það í sér að byggingarmagn á svæðinu yrði helmingi minna en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar með var verkefnið hætt að borga sig.

Þyrping hefur því stefnt Seltjarnarnesbæ og vill rifta öllum kaupsamningum sem þessir aðilar hafa gert á þeim forsendum að Seltjarnarnesbær hafi ekki staðið við skilyrði sem samið var um í upphafi. Nái stefna Þyrpingar fram að ganga þarf Seltjarnarnesbær því að greiða til baka 635 milljónir auk dráttarvaxta sem setur kröfuna upp í rúman milljarð.

Stefnan var birt á föstudaginn og hefur bærinn 10 daga til að bregðast við. Ekki náðist í Jónmund Guðmarsson, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, í dag vegna málsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×