Innlent

Grunur um svínaflensu á Íslandi ekki á rökum reistur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Þau sýni sem send hafa verið til rannsóknar hér á landi vegna gruns um svínaflensu, og búið er að greina, hafa reynst neikvæð og ljóst að ekki er um flensuna að ræða í þeim tilfellum.

Í fréttum okkar í gær sögðum við fá því að ákveðið hefði verið að rannsaka tvo Íslendinga nýkomna frá Bandaríkjunum vegna óljós gruns um að þeir væru með svínaflensu. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir nokkur sýni hafa verið send til rannsóknar en hingað til hafi þau sem búið er að greina verið neikvæð og því ljóst að ekki er um flensuna að ræða í þeim tilfellum.

Verið er að setja upp sérstaka aðstöðu á Keflavíkurflugvelli til að fylgjast með farþegum sem koma til landsins, sérstaklega frá Mexíkó og Bandaríkjunum. Byrjað er að nota aðstöðuna í dag en hún verður tilbúin að fullu á morgun en þar geta hugsanlega smitaðir leitað sér aðstoðar strax hjá heilbrigðisstafsmönnum. Einnig verður upplýsingum dreift til farþega sem koma til landsins.

Á myndum frá Mexíkó má gjarnan sjá fólk með grímur fyrir andlitið. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir ekkert sýna fram á að þær gangist til að verja fólk gegn flensunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×