Innlent

Líklegt að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu

Líklegt er að stjórnarflokkarnir nái samkomulagi um að þjóðin fái að taka afstöðu til niðurstöðu samninga um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stjórnarmyndunarviðræðum lýkur væntanlega ekki fyrr en undir lok næstu viku.

Leiðtogar stjórnarflokkanna funduðu í dag um nýjan stjórnarsáttmála og áframhaldandi stjórnarsamstarf Vinstri grænna og Samfylkingar. Vinnunni verður framhaldið í kvöld og á morgun í starfshópum og á vettvangi forystumanna flokkanna, samkvæmt tilkynningu frá flokkunum. Vinnan gangi vel og sé í samræmi við áætlun.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu í dag að stjórnarmyndunarviðræðurnar kæmu ekki niður á störfum ríkisstjórnarinnar, sem væri að sinna daglegum störfum sínum. Hann reiknaði með að hægt yrði að upplýsa um gang viðræðnanna innan fárra daga. Starfshópur um ríkisfjármál undir forystu Árna Páls Árnasonar Samfylkingu og Svandísar Svavarsdóttur Vinstri grænum kom saman síðdegis og það á við um fleiri hópa á vegum flokkanna.

Áhrifamaður innan Vinstri grænna sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann reiknaði með að flokkarnir kæmust að samkomulagi um að þjóðin fengi að taka afstöðu til aðildarsamnings við Evrópusambandið að loknum viðræðum við sambandið. Það væri í anda stefnu Vinstri grænna að þjóðin fengi að ráða í stórum málum eins og þessum, þótt flokkurinn breytti í sjálfu sér ekki afstöðu sinni til sambandsins. Samningaviðræður flokkanna í þessum efnum eru í forsjá varaformanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×