Innlent

Telur enn koma til greina að skila AGS láninu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lilja Mósesdóttir þingmaður segir enn koma til greina að skila AGS láninu.
Lilja Mósesdóttir þingmaður segir enn koma til greina að skila AGS láninu.
Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og nýkjörinn þingmaður VG, vill fremur skila láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en að láta vaxtakostnað vegna lánsins bitna á stuðningi við fólk sem þarf aðstoð. Þetta kom fram í máli Lilju á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar ræddu Lilja og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur og nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar um niðurskurð á fjárlögum og vaxtakostnað ríkissjóðs.

Lilja sagði að mögulegt væri að fara til Norðurlandanna og sækja um lán frá þeim. Benda þyrfti ríkjum í kringum okkur á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sett stíf skilyrði fyrir láninu. Meðal annars um verulega háa stýrivexti, sem væru að keyra atvinnulífið í kaf.

Sigríður Ingibjörg sagðist ekki vera sammála Lilju um Alþjóðagjaldeyrssjóðinn. Sú áætlun sem samstarfið við sjóðinn byggi á væri mikilvæg og fæli í sér aðgerðir sem ríkið þyrfti hvort eð er að ráðast í. Þá sagðist Lilja vilja að framtíð Íslands yrði byggð upp í sátt við alþjóðasamfélagið.

Sigríður og Lilja voru hins vegar sammála um að það þyrfti að skera niður í ríkisrekstri og að vaxtagreiðslur vegna lána yrðu miklar. Þá sögðu þær að verja þyrfti hag hinna verst settu í þeim samdrætti sem væri framundan. Það yrði að hlífa menntakerfinu og heilbrigðis- og velferðarkerfinu við niðurskurðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×