Innlent

Læknir segir flóttamanninn í ágætis ástandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mansri Hichem hefur verið í hungurverkfalli í þrjár vikur. Fréttablaðið/víkurfréttir
Mansri Hichem hefur verið í hungurverkfalli í þrjár vikur. Fréttablaðið/víkurfréttir
„Maðurinn er í ágætis ástandi. Hann var ekkert lagður inn hér enda ekkert þörf á því," segir Sigurður Árnason, læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, um líðan Mansris Hichem, flóttamannsins sem segist ekki hafa neytt matar í þrjár vikur.

Sigurður segir að málefni mannsins séu í ágætis farvegi. „Þetta er bara Séð og heyrt kjaftæði," segir læknirinn um manninn og hvetur fólk til þess að gera ekki of mikið úr málum hans.

Fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar að Rauði krossinn og Félagsþjónustan í Reykjanesbæ hafa fylgst náið með málum Mansris og verið í viðræðum við hann. Sálfræðingar og félagsfræðingar hafi einnig reynt að telja hann af sveltinu.

Eftir tveggja ára bið, var Hichem synjað um pólitískt hæli hér í mars síðastliðnum. Hann hefur kært synjunina til dómsmálaráðuneytisins og með sveltinu vill hann mótmæla meðferð íslenskra yfirvalda á hælisumsókn hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×