Innlent

Hischem útskrifaður af sjúkrahúsi - neitar enn að borða

Alsírski hælisleitandinn sem hefur verið í mótmælasvelti í tuttugu og einn dag var lagður inn á sjúkrahús í gær vegna hjartsláttatruflana. Hann var skoðaður af læknum en fór heim á miðnætti þar sem hann hafnaði allri læknisaðstoð og neitaði að borða.

Ástand Mansris Hichem er orðið verulega alvarlegt og var hann kominn með hjartsláttatruflanir í gærkvöld. Aðrir hælisleitendur sem búa með honum á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ komu honum undir læknishendur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann var skoðaður. Hann snéri á gistiheimilið aftur á miðnætti eftir skoðun þar sem hann neitaði allri læknisaðstoð.

Mansri sagðist í samtali við Fréttastofu í morgun ekki enn hafa neytt matar. Hann er harðákveðinn í að halda mótmælasveltinu áfram þrátt fyrir aðvaranir lækna. Neyti hann ekki matar á næstu fjórum dögum gæti það valdið varanlegum skemmdum á líffærum hans.

Rauði krossin og Félagsþjónustan í Reykjanesbæ hafa fylgst náið með málum Mansris og verið í viðræðum við hann. Sálfræðingar og félagsfræðingar hafa einnig reynt að telja hann af sveltinu.

Greinargerð í kærumáli Mansris barst dómsmálaráðuneytinu í gærkvöld og þá verður tekin efnisleg afstaða til málsins. Kristrún Kristinsdóttir skrifstofustjóri í ráðuneytinu segist ekki geta gefið upp tímasetningar um afgreiðslu málsins en það verði eins fljótt og hægt er. Ráðuneytið sé meðvitað um hrakandi heilsu Monsris.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×