Innlent

Hischem útskrifaður af sjúkrahúsi - neitar enn að borða

Alsírski hælisleitandinn sem hefur verið í mótmælasvelti í tuttugu og einn dag var lagður inn á sjúkrahús í gær vegna hjartsláttatruflana. Hann var skoðaður af læknum en fór heim á miðnætti þar sem hann hafnaði allri læknisaðstoð og neitaði að borða.

Ástand Mansris Hichem er orðið verulega alvarlegt og var hann kominn með hjartsláttatruflanir í gærkvöld. Aðrir hælisleitendur sem búa með honum á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ komu honum undir læknishendur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann var skoðaður. Hann snéri á gistiheimilið aftur á miðnætti eftir skoðun þar sem hann neitaði allri læknisaðstoð.

Mansri sagðist í samtali við Fréttastofu í morgun ekki enn hafa neytt matar. Hann er harðákveðinn í að halda mótmælasveltinu áfram þrátt fyrir aðvaranir lækna. Neyti hann ekki matar á næstu fjórum dögum gæti það valdið varanlegum skemmdum á líffærum hans.

Rauði krossin og Félagsþjónustan í Reykjanesbæ hafa fylgst náið með málum Mansris og verið í viðræðum við hann. Sálfræðingar og félagsfræðingar hafa einnig reynt að telja hann af sveltinu.

Greinargerð í kærumáli Mansris barst dómsmálaráðuneytinu í gærkvöld og þá verður tekin efnisleg afstaða til málsins. Kristrún Kristinsdóttir skrifstofustjóri í ráðuneytinu segist ekki geta gefið upp tímasetningar um afgreiðslu málsins en það verði eins fljótt og hægt er. Ráðuneytið sé meðvitað um hrakandi heilsu Monsris.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×