Innlent

Sakar stjórnendur Orkuveitunnar um þjófnað

Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur eru æfir vegna fyrirhugaðrar 800 milljóna króna arðgreiðslu til hluthafa. Formaður Rafiðnarsambandsins sakar stjórnendur fyrirtækisins um þjófnað og krefst þess að Orkuveitan skili 400 milljónum sem hafðar voru af starfsmönnum með því að lækka laun þeirra. Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir ekki koma til greina að hækka aftur laun starfsfólksins.

Fyrirhuguð áttahundruð milljón króna arðgreiðsla Orkuveitunnar til eigenda sinna, sem eru Reykjavíkurborg, Akranesbær og Borgarbyggð, hafa vakið hörð viðbrögð meðal starfsmanna Orkuveitunnar. Starfsfólkið er nýlega búið að samþykkja að taka á sig mikla kjaraskerðingu og launalækkanir sem skiluðu Orkuveitunni 400 milljónir. Starfsmönnum var sagt að þessi kjaraskerðing væri nauðsynleg til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sakar borgarstjórn Reykjavíkur um að stela þessum fjögur hundruð milljónum af starfsfólkinu með ákvörðuninni um arðgreiðslurnar. Hann vill að þeim verði skilað strax aftur til starfsmanna annars verði gripið til aðgerða. Hann vill þó ekki segja til hvaða aðgerða verði gripið.

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að arðgreiðslurnar hafi þegar verið skornar niður um helming. Ekki komi til greina að skera þær meira niður eða hækka laun starfsfólks. Greiðslurnar renni beint til samfélagsins í gegnum eigendur sína en þeir noti þær til að halda úti vissri samfélagsþjónustu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×