Erlent

Ofskynjunarfiskur við breskar strendur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Svona lítur blókin út. Sakleysislegt yfirbragð en sé haus hennar étinn má búast við heiftarlegum ofskynjunum í allt að þrjá sólarhringa.
Svona lítur blókin út. Sakleysislegt yfirbragð en sé haus hennar étinn má búast við heiftarlegum ofskynjunum í allt að þrjá sólarhringa.

Fisktegund, sem veldur miklum ofskynjunum sé hennar neytt, hefur fundist við strendur Bretlands.

Hér er um að ræða fisktegundina blók, eða sarpa salpa, sem er aldeilis komin langt frá hefðbundnum heimahögum en þeir eru yfirleitt í Miðjarðarhafinu og kringum Suður-Afríku. Einn slíkur veiddist þó út af strönd Cornwall nú í vikunni og segja sérfræðingar það enn eitt dæmið um afleiðingar hnattrænnar hlýnunar á fiskistofna að hitabeltisfiskar séu nú farnir að spóka sig vandræðalítið svo norðarlega á hnettinum.

Það sem er merkilegt við blókina er að séu vissir hlutar hennar étnir valda efnasambönd í þeim heiftarlegum ofskynjunum fyrir þann sem nærist á dýrinu og geta þær jafnvel staðið dögum saman. Árið 2006 voru tveir eldri menn í Frakklandi vistaðir á sjúkrahúsi í skyndingu eftir að hafa lagt sér blók til munns og sætti annar þeirra heiftarlegum ofskynjunum í þrjá sólarhringa.

Þetta gildir þó aðeins um höfuð fisksins og örfáa aðra hluta hans en blókin er vinsæll fiskréttur á ýmsum ferðamannastöðum við Miðjarðarhafið. Menn þurfa bara að standa klárir á því hvað má borða og hvað ekki af fiskinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×