Skoðun

Hagsmunir Íslands eru í Evrópu

Elvar Örn Arason skrifar

Ógnir og átakasvæði í alþjóðakerfinu hafa breyst eftir lok kalda stríðsins. Hagmunir Bandaríkjanna hafa færst til annarra heimsálfa og því ekki pólitískur vilji til að taka þátt í sameiginlegum vörnum Evrópu í sama mæli og áður. Í kjölfarið hefur Evrópa þurft að axla meiri ábyrgð á sínum öryggis- og varnarmálum. Þetta á einnig við um Ísland. Brotthvarf bandaríska hersins og breyttar áherslur NATO kalla á nýtt hagsmunamat.

Í kalda stríðinu var náin samvinna á milli Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála. Danmörk, Noregur og Ísland gengu í NATO meðan Svíþjóð og Finnland aðhylltust hlutleysisstefnu. Á yfirborðinu leit út fyrir að þjóðirnar væru klofnar og stefndu í þveröfuga átt. Staðreyndin var sú að þau voru sameinuð í að halda hinu svokallaða „norræna jafnvægi". Í því fólst að halda sig í fjarlægð frá átökum stórveldanna og forðast átök við þau. Þessi sameiginlega afstaða leiddi til óformlegs öryggissamfélags, þar sem ríkin höfðu ávallt hagsmuni svæðisins að leiðarljósi.

Norrænu ríkin í NATO stóðu vörð um pólitískan stöðugleika á svæðinu. Þau vísuðu oft til norrænnar samstöðu þegar staða Finnlands var rædd á vettvangi NATO. Pólitískur þrýstingur Sovétríkjanna á Finnland hefði óhjákvæmilega aukist ef Danmörk og Noregur hefðu fallist á varðveislu kjarnorkuvopna og viðveru Bandaríkjahers. Í tvípólakerfi kalda stríðsins stóðu Norðurlöndin að mörgu leyti betur að vígi en ríki Mið-Evrópu, þar sem þeim tókst að mestu leyti að komast hjá átökum stórveldanna.

Í dag eru öryggis- og varnarhagsmunir Norðurlandanna samtvinnaðir Evrópu. Þau hafa í gegnum tíðina varið takmörkuðum fjármunum til vígbúnaðar og lagt áherslu á mannréttindi, lýðræði, lög og reglu í alþjóðakerfinu og samvinnu innan alþjóðastofnana. Þessi grunnstef í utanríkisstefnu þeirra samrýmast vel afstöðu ESB og eru í samræmi við hefðbundnar áherslur þeirra.

Utanríkis-, öryggis- og varnarsamstarf ESB er í stöðugri þróun. Íslendingar geta skipað sér í sveit með hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum innan þess. Innganga Ísland í ESB og þátttaka í sameiginlegri stefnu þess í utanríkis- og öryggismálum mun uppfylla það varnarlega tómarúm sem skapaðist eftir brotthvarf Bandaríkjahers og minna vægi NATO í vörnum Íslands.

Höfundur er MA í alþjóðasamskiptum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×