Birgitta Jónsdóttir þingmaður Borgarahreyfingarinnar skorar á þá fyrrverandi ráðherra sem rétt eiga á biðlaunum en sitja jafnframt á Alþingi, að afsala sér laununum. Á bloggsíðu sinni skrifar Birgitta í dag að það sé „einfaldlega siðlaust að þiggja þetta" á meðan krafan í samfélaginu sé á þá leið að launþegar taki á sig launalækkanir. Ráðherrarnir fyrrverandi fá aukalega 335 þúsund krónur á mánuði fyrir að þiggja biðlaunin.
Fjórir fyrrverandi ráðherrrar eiga rétt á biðlaunum í sex mánuði þrátt fyrir að sitja enn á þingi. Þau eru:
- Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sjálfstæðisflokki.
- Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Sjálfstæðisflokki.
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, Sjálfstæðisflokki.
- Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, Samfylkingunni.
Rétt til þriggja mánaða biðlauna hefur:
- Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra, Samfylkingunni.
Þess ber að geta, að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, Samfylkingunni, hefur einnig rétt á biðlaunum en hann afsalaði sér þeim þegar hann lét af embætti í lok janúar.