Innlent

Ræða endurnýjanlega orkugjafa

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra. Mynd/Auðunn Níelsson
Utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Sheikh Abdullah bin Zayed al-Nahyan, er hér á landi í dag. Hann mun funda með Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, í fjarveru Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, en Össur sækir ráðherrafund EES ríkja í Brussel.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að frá árinu 2006 hafa Ísland og Sameinuðu arabísku furstadæmin átt samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, meðal annars hafa íslenskir sérfræðingar veitt ráðgjöf í jarðhitamálum. Þá býðst íslenskum námsmönnum að sækja nám við Tækniháskóla í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og jafnframt hafa fjárfestar lýst áhuga á að taka þátt í jarðhitaverkefnum með Íslendingum.

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru eitt fjögurra ríkja sem bjóða sig fram til að hýsa höfuðstöðvar IRENA sem verður ný alþjóðleg stofnun um endurnýjanlega orku.

Sheikh Abdullah bin Zayed al-Nahyan mun einnig hitta Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, í dag. Þá mun hann snæða hádegisverð í boði forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar og heimsækja Hellisheiðarvirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×