Innlent

Þak á innheimtukostnað gildir ekki um skuldir í lögheimtu

Þak sem sett var á innheimtukostnað í byrjun ársins gildir ekki um skuldir sem komnar eru til lögfræðings í lögheimtu.

Sagt var frá því um helgina að ógreiddur reikningur sjúklings vegna skoðunar á Landspítalanum nær þrefaldaðist eftir að lögfræðistofa rukkaði tólf þúsund krónur í innheimtukostnað. Sjúklingurinn sagði þetta gjörsamlega siðlaust. Upphaflegi reikningurinn lá ógreiddur hjá sjúklingnum í sjö mánuði en fyrir læknisskoðunina átti hann að greiða tæpar átta þúsund krónur.

Eftir að innheimtubréf barst frá Lögmannssstofu Jóns Egilssonar og Auðar Bjargar Jónsdóttur í síðustu viku var skuldin komin í 21.700 krónur með kostnaði. Jón Egilsson lögmaður sagði í samtali við fréttastofu að lögmannsstofum væri heimilt að innheimta kostnað, enda gildi reglugerð sem Björgvin Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra setti í janúar um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar aðeins um innheimtuviðvörun og milliinnheimtu.

Með reglugerðinni er því þannig fyrir komið að þak er á kostnaði sem hægt er að leggja á viðvaranir og milliinnheimtu og gefa skuldaranum samtals fimm tækifæri til að greiða skuld sína áður en umtalsverður kostnaður bætist við. Ef hins vegar skuldarinn hunsar þessi tækifæri og skuldin er send til lögfræðings í lögheimtu er ekkert þak á innheimtukostnaði. Þá gildir gjaldskrá lögmannsstofa og er hún frjáls. Sjálfur kveðst Jón nota lægri taxta en gjaldskrá stofu hans leyfir þegar innheimtar eru svo lágar skuldir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×