Viðskipti innlent

Verðmæti heildaraflans minnkaði um 10% í maí

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum maímánuði, metinn á föstu verði, var 10,3% minni en í maí 2008. Það sem af er árinu hefur aflinn hins vegar aukist um 4,0% miðað við sama tímabil 2008, sé hann metinn á föstu verði.

Fjallað er um málið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflinn í maí 2009 var 64.102 tonn samanborið við 100.014 tonn í sama mánuði árið áður.

Botnfiskafli dróst saman um rúm 5.000 tonn frá maí 2008 og nam rúmum 37.000 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 15.000 tonn, sem var um 800 tonnum minna en árið áður. Ýsuaflinn nam tæpum 8.000 tonnum sem er 400 tonnum minni afli en í maí 2008. Ufsaaflinn dróst saman um 1.200 tonn á milli ára nam um 5.000 tonnum og 2.500 tonn veiddust af karfa, sem er um 1.100 tonnum minna en í maí 2008.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 21.000 tonnum sem er um 29.000 tonnum minni afli en í maí 2008. Síldaraflinn jókst milli ára um rúm 10.000 tonn og nam rúmum 11.600 tonnum. Tæpleg 10.000 tonn veiddust af kolmunna, sem er töluvert minni afli en í maí 2008 þegar tæplega 49.000 tonn voru veidd.

Flatfiskaflinn var rúm 3.800 tonn í maí og dróst saman um tæp 900 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 1.354 tonnum samanborið við 2.188 tonna afla í maí 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×