Innlent

Gylfi: Ekki réttlætanlegt að bjarga bara stofnfjáreigendum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
„Ef ríkið keypti stofnféð fullu verði væri ríkið að taka á sig tap sparisjóðanna á umliðnum árum," segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, um lagafrumvarp sitt um sparisjóðina. Í frumvarpinu er lögð til heimild til að færa niður stofnfé sjóðanna svo þeir geti þegið stofnfjárframlag frá ríkinu.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar, hefur gagnrýnt frumvarpið fyrir að stefna stofnfjáreigendum í þrot.

Gylfi segir án efa rétt að margir þeirra sem tekið hafi þátt í aukningu stofnfjárins á undanförnum árum hafi tekið til þess lán og þeir verði fyrir tapi vegna fjárfestingarinnar.

„Vandinn er raunverulegur, en það er ekki réttlætanlegt að ríkið taki þennan hóp fólks sérstaklega út fyrir sviga og niðurgreiði tap þeirra þegar ekki er hægt að niðurgreiða tap allra," segir Gylfi og bendir á að hluthafar bankanna hafi tapað öllu sínu. Hann segir þó betra að þessi leið sé farin og ríkið komi sparisjóðunum til bjargar en að þeir fari í þrot.

„Það má segja að þetta sé tilboð sem ríkið gerir og stofnfjáreigendum er heimilt að hafna því ef það er óhagstætt, en þá verða þeir jafnframt að bjarga stofnununum með öðrum hætti," segir Gylfi að lokum, en það er fundur stofnfjáreigenda hvers sjóðs sem ákveður hvort stofnféð verði fært niður.

Tengdar fréttir

Eygló Harðar: Stofnfjáreigendur stefna í gjaldþrot

Í nýju frumvarpi viðskiptaráðherra um fjármálafyrirtæki er gert ráð fyrir því að heimilt verði að lækka stofnfé sparisjóða til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×