Innlent

Hringur hlaupinn í nafni friðar

Friðarhlaupið var sett í gærmorgun. Hér sést Þorgrímur Þráinsson hlaupa með Friðarkyndilinn úr Laugardalnum ásamt krökkum af leikjanámskeiði Þróttar og Ármanns.fréttablaðið/anton
Friðarhlaupið var sett í gærmorgun. Hér sést Þorgrímur Þráinsson hlaupa með Friðarkyndilinn úr Laugardalnum ásamt krökkum af leikjanámskeiði Þróttar og Ármanns.fréttablaðið/anton

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra setti Friðarhlaupið á Íslandi í Laugardal í gærmorgun. Friðarhlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup en tilgangur þess er að efla frið, vináttu og skilning.

„Þetta var mjög góð athöfn," segir Torfi Leósson, skipuleggjandi hlaupsins á Íslandi. Hlaupið verður hringinn um Ísland frá 1. til 16. júlí. Alls munu þrjátíu sjálfboðaliðar frá fimmtán löndum hlaupa með Friðarkyndilinn ásamt fjölda Íslendinga.

Hlaupinu lýkur 16. júlí við Tjörnina í Reykjavík. Þá mun Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, taka við kyndlinum og segir Torfi að vonast sé til að helstu bakhjarlar hlaupsins í gegnum árin verði viðstaddir, þar á meðal Vigdís Finnbogadóttir sem var verndari hlaupsins um árabil.

Hlaupið var fyrst haldið árið 1987 og hefur Ísland tekið þátt frá upphafi. Talsmaður á alþjóðavettvangi er Carl Lewis, nífaldur Ólympíugullverðlaunahafi. Meðal annarra sem tekið hafa þátt eru Nelson Mandela, Móðir Teresa og Muhammad Ali.

„Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólítískan málstað," segir Torfi en hann tók sjálfur fyrst þátt í hlaupinu árið 1989, aðeins ellefu ára gamall.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×