Innlent

Atli Gíslason: Kannski betra að lýsa yfir þjóðargjaldþroti

Geti Íslendingar ekki staðið undir erlendum skuldbindingum blasir við þjóðargjaldþrot. Þetta er mat stjórnarþingmannsins Atla Gíslasonar. Hann segist ekki munu samþykkja Icesave samninginn reynist það rétt að erlendar skuldir nemi 250 prósentum af landsframleiðslu.

Eins og fréttastofa sagði frá í gærkvöldi eru erlendar skuldir Íslands mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað til lands í nóvember síðastliðnum. Franek Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins hér á landi, staðfesti þetta í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi.

Samkvæmt útreikningum fréttastofu eru erlendar skuldir Íslands nú um 250% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir hvað mest til. Þess ber að geta að útreikningarnir eru byggðir á tölum um erlendar skuldir frá því í lok mars á þessu ári. Staðan hefur ekki verið birt opinberlega, hvorki af stjórnvöldum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun var skuldastaða Íslands ásamt Icesave samningnum til umræðu. Atli Gíslason, þingmaður vinstri grænna tók þátt í umræðunni og sagðist hann íhuga hvort ekki væri betra að lýsa yfir greiðsluþroti og mæta því strax í stað þess að fresta vandanum vandann. Atli sagði einnig að sé staðan svo slæm sem um ræðir, þá muni hann ekki samþykkja ríkisábyrgð á Icesave samningnum sem rætt er um á þingi í dag.








Tengdar fréttir

Erlendar skuldir Íslands tvö- til þreföld landsframleiðsla

Erlendar skuldir Íslands eru nú tvöföld til þreföld landsframleiðsla. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði í nóvember að ef hlutfallið færi upp í 240 prósent þýddi það að Ísland gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×