Lífið

Flóran ein flottasta bók Evrópu

Fékk silfrið Snæfríður Þorsteins með Flóru Íslands sem þótti ein af flottustu bókum Evrópu.Fréttablaðið/GVA
Fékk silfrið Snæfríður Þorsteins með Flóru Íslands sem þótti ein af flottustu bókum Evrópu.Fréttablaðið/GVA

Bók Eggert Péturssonar, Flóra Íslands, fékk silfurverðlaun í keppni evrópskra hönnuða og auglýsingastofa sem fram fór í Barcelona í júní síðastliðnum. Það voru þær Snæfríður Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir sem hlutu þessi verðlaun en þær höfðu áður hlotið verðlaun FÍT í flokki grafískrar hönnunar fyrir prentmiðla fyrir þessa bók. „Þetta er alveg glæsilegt og árangurinn þýðir að við getum sent bókina í enn stærri keppni,“ segir Hörður Lárusson, formaður FÍT.

Bókin hlaut verðlaun í flokki bóka, bókverka og ársskýrslna en að sögn Harðar munaði aðeins einu atkvæði að hún hefði komið heim með gull. „Það virðast bara vera örlög okkar að fá silfur,“ segir Hörður en eins og flestir ættu að vita varð Jóhanna Guðrún í öðru sæti í Eurovision og silfrið í Peking mun seint gleymast. „Bókin er náttúrulega alveg ótrúlega flott, hún er miklu meira en bara bók, hún er listaverk,“ útskýrir Hörður og bætir því við að keppinautar hennar hafi flestir komið af auglýsingasviðinu. „Sem gerir árangur hennar bara enn betri.“

Hörður bætir því þó við að margir hafi komið að máli við sig eftir að dómnefnd hafði kveðið upp sinn dóm og sagt að bókin hefði átt skilið að vinna. „Það var hins vegar þýsk bók, Hide & Seek Booklet, sem vann. Hún er líka nokkuð flott.“ Flóra Íslands er án nokkurs vafa ein stærsta og veglegasta bókin sem gefin hefur verið út. Hún er 560 síður, með teikningum eftir Eggert Pétursson, einn fremsta samtímalistamann þjóðarinnar. Bókin er aðeins gefin út í fimm hundruð eintökum sem hvert og eitt er tölusett og áritað af Eggerti. Hún kostar 75 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.