Innlent

Fjárlaganefnd fundar með Indefence á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðbjartur Hannesson segir Trichet skýrsluna ekki hafa verið rædda á fundi fjárlaganefndar.
Guðbjartur Hannesson segir Trichet skýrsluna ekki hafa verið rædda á fundi fjárlaganefndar.
Fjárlaganefnd Alþingis ætlar að funda á morgun með Indefence hópnum og fleiri aðilum sem hafa verið gagnrýnir á Icesave samninginn. „Við ætlum að leggja okkur eftir því að fá inn ólík sjónarmið í umræðuna og fá þau inn strax," segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, í samtali við fréttastofu.

Fjárlaganefnd fundaði með samninganefnd Íslendinga í málinu í morgun og segir Guðbjartur að þar hafi gefist tími til að spyrja samningamenn út í það hvernig staðið hefði verið að gerðum samningum og fengið skýringar og mat á samningnum. Þá hafi verið rætt við slitastjórn og skilanefnd Landsbankans og rætt um mat þeirra á eignasafninu og hvernig þeir héldu utan um það. Þá verði rætt við fulltrúa frá Tryggingasjóði innlána í dag.

Guðbjartur segir að viðtal við Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudag hafi ekki komið formlega til tals á fundinum. Trichet skýrslan, þar sem segir að innistæðutryggingakerfið eigi ekki við þegar kerfishrun verði, hafi ekki komið inn á borð fjárlaganefndar og ekki hafi verið kallað eftir því. Hins vegar sé mikil vinna eftir í málinu. Fjárlaganefnd eigi eftir að ræða við ráðuneytin. Þá séu þrjár nefndir sem skipti á milli sín umfjöllun um málið, en það eru auk fjárlaganefndar, efnahags- og skattanefnd, og utanríkismálanefnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×