Viðskipti innlent

Ríkið eignast Sjóvá að fullu gegnum Glitni og Íslandsbanka

Fjármálaráðherra hefur í samráði við ríkisstjórnina ákveðið að taka þátt í endurskipulagningu á vátryggingastarfsemi Sjóvár. Ríkissjóður hefur keypt 73% hlut í Sjóvá gegnum dótturfélag Glitnis. Þar að auki á Glitnir sjálfur 18% og Íslandsbanki 9%. Fyrir hlut ríkisins eru greiddir 11,6 milljarðar kr.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að með aðkomu sinni hefur ríkissjóður aðstoðað við að tryggja hagsmuni almennings.

Í þessu skyni hefur ríkissjóður selt SAT eignarhaldsfélagi hf sem er dótturfélag Glitnis, kröfur sem ríkissjóður eignaðist við fall viðskiptabankanna í október síðastliðnum. Meðal seldra krafna eru kröfur á Askar Capital dótturfélag Milestone samstæðunnar. Sala þessara krafna er mikilvægur liður í aðskilnaði vátryggingastarfsemi Sjóvár og fjárfestingu tengdri fasteignaverkefnum.

Söluverð krafnanna er 11,6 milljarðar sem skulu greiðast innan 18 mánaða eða við sölu Sjóvár. Stefnt er að því að rekstur vátryggingafélagsins Sjóvár fari í formlegt söluferli á næstu mánuðum.

Í greiðslufrestinum sem ríkissjóður veitir eru hlutabréfin sem SAT eignarhaldsfélag hf. eignast við endurskipulagningu Sjóvár veðsett til tryggingar skilvísri greiðslu en um er að ræða 73% hlut í vátryggingafélaginu Sjóvá.

Sala þessara krafna er þáttur í þeirri vinnu sem fer fram í fjármálaráðuneytinu við að hámarka verðgildi þeirra eigna sem ríkissjóður fékk við fall bankanna í október 2008.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×