Ríkissaksóknari var ekki vanhæfur til að gefa út ákæru á hendur manninum sem í vikunni fékk þungan dóm fyrir að beita sambýliskonu sína grófu ofbeldi, að mati héraðsdóms. Dómnum verður að öllum líkindum áfrýjað til Hæstaréttar vegna of náinna tengsla á milli þeirra sem rannsökuðu málið og ákæruvaldsins.
Maðurinn, sem er háskólamenntaður Reykvíkingur á fertugsaldri, var sl. þriðjudag dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að beita fyrrum sambýliskonu sína grófu ofbeldi linnulítið í þrjú ár, 15 kynferðisbrot og þvinga hana til þess að hafa kynmök við 11 ókunnuga menn. Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir að hafa ráðist á föður sinn og hótað honum lífláti.
Ákæra í málinu var gefin út í janúar á þessu ári. Í framhaldinu fór lögmaður mannsins fram á að málinu yrði vísað frá dómi vegna þess að embætti ríkissaksóknara, sem Valtýr Sigurðsson stýrir, væri vanhæft til að höfða mál á hendur manninum vegna of náinna tengsla Valtýs við kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Eiginkona hans starfar sem aðstoðarsaksóknari á kynferðisbrotadeildinni og vann að málinu á meðan það var í rannsókn. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í febrúar ekki væri hægt að draga óhlutdrægni ríkissaksóknara með réttu í efa vegna tengslanna og því var kröfunni vísað frá.
Eftir að dómurinn féll í vikunni sagði lögmaður mannsins að dómnum verði að öllum líkindum áfrýjað til Hæstaréttar, meðal annars á grundvelli þess að of náin tengsl hafi verið á milli þeirra sem rannsökuðu málið og ákæruvaldsins.
Vísaði lögmaðurinn til tengsla Valtýs og eiginkonu hans en auk þess benti hann á að settur saksóknari sem gaf út út ákæruna sé dóttir yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.