Innlent

Segir ekkert að vanbúnaði að afgreiða málið úr nefnd

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar og formaður efnahags- og skattanefndar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar og formaður efnahags- og skattanefndar. Mynd/Vilhelm

„Það er nú alltaf matsatriði hvenær umfjöllunin er orðin nægileg," segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, en Icesave frumvarpið var afgreitt úr nefndinni í dag og vísað til meðferðar fjárlaganefndar.

Fulltrúar minnihlutans í efnahags- og skattanefnd og Lilja Mósesdóttir, varaformaður nefndarinnar, hafa lýst óánægju með að málið hafi verið afgreitt úr nefndinni í dag. Þau hefðu viljað hafa málið lengur til umfjöllunar.

Helgi segir hins vegar að umfjöllun nefndarinnar um málið hafi þegar staðið lengur en til stóð í upphafi. Nefndin hafi fengið ítarleg gögn um málið og reynt hafi verið að mæta óskum nefndarmanna um gesti.

„Við sáum ekkert því að vanbúnaði að senda fjárlaganefnd umsögn um þá þætti sem nefndinni voru faldir til umfjöllunar," segir Helgi og bendir á að meirihluti hafi verið fyrir því á fundi nefndarinnar í dag.

Það var þó eftir að Lilja Mósesdóttir kallaði inn varamann þar eð hún vildi ekki blanda Icesave málinu saman við ríkisstjórnarmynstur á þessu stigi með því að kjósa gegn meirihlutaáliti nefndarinnar.

„Það voru þrír nefndarmenn sem kölluðu inn varamenn og um ástæður þess verða þeir að svara til sjálfir," segir Helgi.

Helgi segir mikilvægt að málið sé komið til fjárlaganefndar.

„Ég held að það sé mikilvægt að lokaumfjöllun málsins sé á einum stað þar sem meiri líkur eru til þess að hægt sé að ná samstöðu um með hvaða hætti sé hægt að standa að afgreiðslu málsins, hvort sem er með nefndaráliti eða samþykkt sem samstaða er um," segir Helgi og bætir við að það sé erfitt verk þegar málið er í þremur mismunandi nefndum.

Frumvarpið var einnig til umfjöllunar í utanríkisnefnd og var afgreitt þaðan til fjárlaganefndar í dag.






Tengdar fréttir

Vék sæti frekar en að kjósa gegn meirihlutanum

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kaus að kalla inn varamann á nefndarfund efnahags- og skattanefndar í dag frekar en að kjósa gegn meirihlutaáliti nefndarinnar um Icesave-frumvarpið.

Framhald á svipugöngum Vinstri grænna

Sjálfstæðismenn eru mjög ósáttir við að Icesave málið skyldi hafa verið tekið út úr efnahags- og skattanefnd, segir Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Málið verður ekki rætt frekar í efnahags- og skattanefnd en Tryggvi telur að séu enn að berast nýjar upplýsingar á hverjum

Birgitta kemur Lilju til varnar

„Hvað átti hún að gera annað, átti hún að rjúfa meirihlutann? Það er rosalega erfitt að standa einn í svona stappi miðað við pressuna undanfarið," segi Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Borgarahreyfingarinnar, í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×