Innlent

Fyrrum upplýsingafulltrúi kærður til sérstaks saksóknara

Andri Ólafsson skrifar
Benedikt Sigurðsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Kaupþings, hefur verið kærður til sérstaks saksóknara fyrir að hafa sent efnislega rangan tölvupóst til fjölmiðla í blekkingarskyni.

Málið á rætur sínar að rekja mörg ár aftur í tímann og snýst um deilur Þorsteins Ingasonar við Búnaðarbankann og síðar KB Banka og Kaupþing.

Þorsteinn átti skreiðafyrirækti á 9. áratug sem tekið var til gjaldþrotaskipta. Hann sætti sig ekki við þau málalok og telur að ólögmætar aðgerir bankans hafi leitt til gjaldþrotsins. Málarekstur hefur staðið yfir vegna þess allar götur síðan.

Fjármálaeftirlitið blandaði sér í málið árið 2005 og gerði athugsemdir við vinnubrögð bankans í málinu. Eftir að það komst í fjölmiðla ári síðar sendi Benedikt Sigurðsson, sem þá var upplýsingafulltrúi bankans, bréf til fjölmiðla þar sem hann sagði að fjármálaeftiritið hafi ekki talið tilefni til aðhafast í málinu.

Þorsteinn hefur nú kært Benedikt vegna þessa. Hann segir að tölvupóstur upplýsingafulltrúans hafi verið efnislega rangur og blekkjandi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er málið komið inn á borð sérstaks saksóknara.

Benedikt er nú aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar, formanns Framsóknarflokksins.

Benedikt kom því á framfæri við fréttastofu, að hann hafi ekkert heyrt af málinu.

Hans starf hjá Kaupþingi hafi verið að senda út upplýsingar sem yfirmenn bankans hafi viljað koma á framfæri. Þær upplýsingar sem kært er fyrir, séu því ekki frá honum, heldur hafi hann einungis komið þeim á framfæri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×