Innlent

Mögulegt að VR fari út úr ASÍ

Rætt hefur verið meðal nokkurra stjórnarmanna í VR að félagið fari út úr ASÍ meðal annars vegna þess að það þyki of kostnaðarsamt. Formaður VR segir það vel koma til greina, þó taka þurfi slíka ákvörðun að vandlega íhuguðu máli.

Nokkrir stjórnarmanna VR hafa rætt sín á milli um hvort félagið væri betur sett utan ASÍ. Félagið er með rúmlega 25 þúsund félagsmenn og borgar um 70 milljónir á ári fyrir að vera í sambandinu. Sjö manns komu nýir inn í stjórn VR í apríl síðastliðnum og virðist sem nokkrir úr þeim hópi vilji skoða þann möguleika að félagið fari úr sambandinu. Ýmsar ástæður eru nefndar, svo sem stuðningur ASÍ við inngöngu í Evrópusambandið og að það þyki of kostnaðarsamt.

Formaður VR, Kristinn Örn Jóhannesson, segir það enga gullna reglu að VR sé innan ASÍ. Engin rök hnígi þó að því að VR eigi að vera utan sambandsins. Hann segir mikilvægt að launþegar standi saman.

VR hefur verið í ASÍ í 45 ár en það tók félagið fimm ár að komast inn í sambandið. Pólitískir hagsmunaárekstrar spiluðu þar inn í og fékk félagið loks inngöngu í Alþýðusambandið 1964 að undangengnum Félagsdómi. Sögunnar vegna telur Kristinn einnig að ekki sé hægt að ganga úr sambandinu nema að vel athuguðu máli.

Kristinn segir að málið verði tekið fyrir í stefnumótunarvinnu með félagsmönnum í haust.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×