Innlent

Leyniglærum Kaupþings lekið: Gífurlegar fjármagnshreyfingar

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Höfuðstöðvar Kaupþings.
Höfuðstöðvar Kaupþings. Mynd/Valli

Upplýsingum um gífurlegar fjármagnshreyfingar, ný lán og afskriftir, innan Kaupþingssamstæðunnar rétt fyrir fall hans hefur verið lekið á netið, að því er fram kemur í kvöldfréttum RÚV.

Upplýsingarnar eru tvöhundruð blaðsíðna glæruyfirlit frá örlagaríkum fundi lánanefndar bankans 25. september í fyrra. Glærurnar voru settar á heimasíðuna Wikileaks, sem ætluð er til að hýsa leka af þessu tagi.

Þar koma í ljós há lán til kjölfestueigenda bankans, þar á meðal ellefu fyrirtækja í Exista-fjölskyldunni upp á ríflega 300 milljarða að núvirði.

Robert Tchenguiz, stjórnarmaður í Exista, og aðilar eða fyrirtæki tengd honum fengu fyrirgreiðslu upp á 330 milljarða króna.

Þá hafa fyrirtæki sem tengjast Kjalari og Ólafi Ólafssyni í Samskipum verið með fyrirgreiðslu upp á 140 milljarða ef Alfesca er tekið með, segir í frétt RÚV.

Að auki hafi fyrirtæki tengd Baugsfjölskyldunni fengið lánafyrirgreiðslu upp á samtals 320 milljarða króna á núverandi gengi.

Birting upplýsinganna hefur að sögn valdið titringi innan Kaupþings, en lögfræðideild Kaupþings mun hafa varað fréttastofu RÚV við og bent á að notkun upplýsinganna gæti leitt til málsókna. Þá krafðist bankinn þess við umsjónarmenn Wikileaks að þeir fjarlægðu gögnin af síðunni - sem þeir neituðu fullum hálsi.

Samkvæmt heimildum RÚV fóru miklar tilfærslur á fjármunum af stað í kjölfar fundar lánanefndarinnar sem vöktu illan grun hjá breska fjármálaeftirlitinu og urðu til þess að Gordon Brown sendi sérstakar fyrirspurnir til Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra. Háaum fjárhæðum hafi fram að hruni verið varið í ný lán og stórar fjárhæðir afskrifaðar.

Glæruyfirlitið má sjá á WikiLeaks hér, eða sækja það sem skjal hér að neðan.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×