Erlent

Palestínumenn út og gyðingar inn

Óli Tynes skrifar
Eigur palestinsku fjölskyldnanna voru bornar út á götu.
Eigur palestinsku fjölskyldnanna voru bornar út á götu. Mynd/AP

Tvær palestinskar fjölskyldur voru reknar af heimilum sínum í Austur-Jerúsalem í dag og gyðingafjölskyldum leyft að flytja í hús þeirra í staðinn.

Lögreglumenn á staðnum sögðu að þeir væru að framfylgja úrskurði dómstóls sem byggði úrskurð sinna á skjölum frá nítjándu öld.

Þetta fellur að líkindum í grýttan jarðveg í Bandaríkjunum, þar sem Bandaríkjamenn hafa þrýst mjög á Ísraela að hætta að stækka landnemabyggðir sínar á Vesturbakkanum.

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra hefur sagt að gyðingar eigi biblíusögulegan rétt í Jerúsalem og að þeir megi búa hvar sem þeir vilja í borginni.

Í Austur-Jerúsalem búa um 200 þúsund gyðingar og 250 þúsund palestínumenn. Palestínumenn vilja fá austurhlutann sem höfuðborg í nýju ríki sínu.

Í Austur-Jerúsalem er hinsvegar grátmúrinn, einn helgasti staður gyðinga. Meðan Jórdanir réðu Vesturbakkanum fengu gyðingar ekki að koma þar að. Það breyttist þegar Ísraelar hertóku borgina í sex daga stríðinu árið 1967.

Það er afstaða Ísraela að þeir verði aldrei aftur útilokaðir frá grátmúrnum. Stjórnvöld þar hafa margítrekað að óskipt Jerúsalem sé höfuðborg landsins og að þau muni aldrei láta hluta af henni frá sér.

Í Austur-Jerúsalem er einnig Ómar moskan sem er einn af þrem helgustu stöðum múslima. Þeir trúa því að þaðan hafi Múhameð stigið til himins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×