Innlent

Hannes Hólmsteinn: Steingrímur á að biðjast afsökunar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði.
„Ef einhverjir eiga að biðjast afsökunar eru það þeir sem gerðu Icesave samningana," segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, spurður hvort að Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, eigi að biðja íslensku þjóðina afsökunar vegna þeirra byrðar sem á hana fellur vegna Icesave reikninga bankans. Að mati Hannesar klúðraði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Icesave málinu.

Ekki hugmyndafræðingur hrunsins

Hannes var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 2 í morgun. Aðspurður sagðist hann ekki vera einn af hugmyndafræðingum bankahrunsins. Hannes kvaðst gangast við því að að vera einn af hugmyndafræðingum þeirra breytinga sem urðu á Íslandi 1991 til 2004 en eftir það hafi sigið á ógæfuhliðina. Valdajafnvægið hafi breyst og auðjöfrar hafi orðið alráðir með blessun forseta Íslands.

Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra árið 2004.

Þjóðin missti taumhaldið

Hannes sagði að þjóðin hafi misst taumhaldið og auðjöfrar sem hafi átt fjölmiðla og forsetaembættið hafi ekki búið við neitt aðhald. „Öll þjóðin, að undantekningu Davíð Oddssyni, tók þátt í þessu. Ég tók meira að segja þátt í þessu."

Hannes gaf lítið fyrir að forystumenn fjármálafyrirtækja biðjist afsökunar. „Þessir eilífu útvarps- og sjónvarpsþættir þar sem einhver aðgangsharður fréttamaður, sem ætlar að brillera í kaffinu á eftir, er að reyna að krefjast afsökunarbeiðni frá einhverjum þjónar litlum tilgangi. Það sem við þurfum að gera er að vita hvar mistökin voru gerð."

Að mati prófessorsins eru þrjár ástæður fyrir bankahruninu. Kerfisgalli í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið, fautaskapur Breta og í þriðja lagi glannaskapur íslenskra bankamanna.



Steingrímur biðjist afsökunar


Spurður hvort að Kjartan Gunnarsson eigi að biðjast afsökunar fyrir aðkomu sína að Icesave reikningum Landsbankans eins og fjármálaráðherra hefur talað fyrir svaraði Hannes:

„Mér finnst að fjármálaráðherra eigi að biðjast afsökunar á því að hann setur alveg gersamlega óhæfa samningamenn, þá Indriða Þorláksson og Svavar Gestsson, í samninganefnd fyrir okkur sem láta ekki einu sinni reyna á það fyrir dómstólum hvort að við erum skuldbundin til að greiða skuldir sem eins og Davíð sagði óreiðumenn hafa stofnað til."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×