„Ég fann ekkert athugavert við hann," segir Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi, en hann sat í þingsal og hlustaði á eldræðu Sigmundar Ernis Rúnarssonar á fimmtudagskvöldinu.
Framkoma Sigmundar hefur vakið athygli víða. Meðal annars gengur myndband manna á milli undir heitinu: Fjör á Ölþingi.
Í myndbandinu er klippt saman eldræða Sigmundar um Icesave málið og svo andsvör hans gagnvart þingmönnum. Í einu svarinu ávarpar hann meira að það segja Árna Johnsen í þingsal.
Framkoma Sigmundar þótti svo undarleg að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingkona og samflokkskona Árna, hyggst taka málið upp í forsætisnefnd. Sjálf er hún fyrsti varaforseti Alþingis.
Árni segist ekki hafa neitt út á hegðun Sigmundar Ernis að setja.
„Hann hefur ákveðin stíl og lagði greinilega mikla vinnu í þessa ræðu," segir Árni um Sigmund þetta undarlega kvöld. Í viðtali við Vísi daginn eftir umræðurnar sagði Sigmundur Ernir að það hefði verið galsi í þingmönnum seint um kvöldið.
Nú er spurning sú hvort galsinn hafi í raun verið áfengisneysla. Hann neitaði því þó alfarið samkvæmt fréttastofu RÚV en fréttaritari þeirra á Norðurlandi spurði hann í dag hvort hann hefði neytt áfengis þetta kvöld.
„Þetta er of langt gengið," segir Árni um viðbrögð Ragnheiðar en sjálfur er hann staddur í Færeyjum á fundum. Hann hafði ekki séð fréttina en heyrði af henni. Honum þykir viðbrögð Ragnheiðar harkaleg.
„Það er ekkert hægt að kvarta undan Sigmundi Erni að mínu mati," segir Árni sem sjálfur ræddi við þingmanninn þetta sama kvöld og segir Sigmund ekki sekann um annað en dramatískan flutning á metnaðarfullri ræðu sinni.
Ekkert hefur náðst í Sigmund þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir Vísis. Þá hefur ekki heldur náðst í formann þingflokks Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, en heimildir fréttastofu herma að hann hafi rætt málið sérstaklega við Sigmund.

