Skoðun

Leiðrétting skulda, ekki lækkun

Karl Ingimarsson skrifar

Þegnar bankarnir hrundu dró íslenska ríkið úr tapi sparifjáreigenda með 200 milljörðum frá skuldurum og öðrum íslendingum. Líklega vegna þess að sparifjáreigendur höfðu ekki gert neitt annað en að treysta bönkunum fyrir peningunum sínum.

Við sem skuldum erlend húsnæðislán skuldum núna tvöfalt það sem við skulduðum fyrir hrun. Það sem við áttum í húsunum okkar er horfið vegna þess að við treystum bönkunum og því sem þeir sögðu þegar við tókum lánin.

Hver er munurinn? Báðir aðilar treystu bönkunum fyrir sparnaði sínum, peningum og húsum, og að bankarnir stæðu við gerða samninga. Munnlegir samningar eru jafngildir skriflegum og okkur lántakendum var sagt að lánin gætu hækkað um allt að 30%.

Nú hafa lánin hækkað um 100% og „innistæður" okkar í húsunum lækkað í samræmi við það. Það á að leiðrétta skuldir heimilanna að hluta og bæta þar með tjónið á sama hátt og innistæðueigendum var bætt sitt tjón.

Við skuldarar erum ekki að óska eftir því að okkur verði gefið neitt heldur að skuldirnar verði í samræmi við lánin sem við tókum og því sem okkur var lofað af bönkunum þegar við tókum lánin. Að eignaupptökunni verði hætt. Það er enginn munur á því að taka af fólki peninga sem það á bundið í húsum sínum eða bankareikningum.Við berum ekki ábyrgð á hruni bankanna frekar innistæðueigendurnir.

Félagsmálaráðherra hefur heldur mildast hvað varðar leiðréttingu skulda og vill aðstoða þá sem eru verst settir, ekki flata leiðréttingu sem er réttlátust og einföldust. Flöt niðurfelling í prósentum með hámarki er einfaldasta og sanngjarnasta leiðin. Sparifjáreigendur fengu sitt bætt, bæði þeir sem höfðu allt sittt í bönkunum og þeir sem áttu auk þess peninga undir koddanum.

Höfundur er rafmagnstæknifræðingur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×