Innlent

Birgitta Jónsdóttir: Forseti hefði átt að grípa í taumana

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, til hægri.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, til hægri.
„Mér finnst náttúrulega ótækt að fólk stígi upp í pontu þegar það er búið að fá sér í glas. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta er gert," segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar.

Hún er ekki ánægð með framgöngu Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingar, sem nú hefur viðurkennt að hafa fengið sér léttvín með mat áður en hann flutti ræðu í þingsal. Hún tekur samt fram að hún hafi ekki verið viðstödd fundinn, en hafi séð ræðuhöldin eftir á.

Hún segir ekki síst hafa farið fyrir brjóstið á sér að þingmaðurinn er fulltrúi í fjárlaganefnd sem hafði Icesave til umfjöllunar og fólk hafi kannski átt von á því að fá frá honum skýrari vitnisburð en raun bar vitni.

„En mér fannst hinir sem sátu í salnum ekkert skárri. Fólk sá í hvernig ástandi hann var. Manni finnst ekkert sniðugt að taka þetta svona langt."

Birgitta segir að auðvitað beri þingforseta að gæta að því þegar svona mál kemur upp að gera eitthvað í málinu.

„Forseti sussar á fólk fyrir að segja vítavert eða segja háttvirtur á rangan hátt, en svo kemst maður upp með að halda langa ræðu vel í glasi."

Hún segir að hafi það einhverntíman verið til siðs að fá sér í glas á kvöldfundum, þá sé kominn tími til að breyta því - fólk geti þá fengið sér í glas eftir á.

Aðspurð hvort hún telji það standa upp á þingmanninn að segja af sér, segir Birgitta svo ekki vera.

„Mér finnst fólk hafa gert miklu alvarlegri hluti sem kalla á afsögn en það sem hann gerði."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×