Innlent

Ríkið vill skaðabætur frá útrásarvíkingum

Skaðabótamál Fordæmi eru fyrir því bæði erlendis og hérlendis að ríkið fari í skaðabótamál, þó óvenjulegt sé að svo stór atburðarás sé tekin fyrir með þessum hætti, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Skaðabótamál Fordæmi eru fyrir því bæði erlendis og hérlendis að ríkið fari í skaðabótamál, þó óvenjulegt sé að svo stór atburðarás sé tekin fyrir með þessum hætti, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Fréttablaðið/GVA

Ríkisstjórnin samþykkti í gær að hefja undirbúning að höfðun skaðabótamála gegn einstaklingum, félögum og fyrir-tækjum sem sýna má fram á að hafi valdið ríkinu og íslenskum almenningi fjárhagslegu tjóni með athöfnum í aðdraganda bankahrunsins.

„Það má segja að þetta sé bæði hluti af eðlilegri hagsmunagæslu fyrir hönd ríkisins og þjóðarbúsins, en líka hluti af því að réttlætið nái fram að ganga,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

„Ég treysti því, hvað sem út úr þessu kemur, að það fullnægi betur réttlætiskennd manna að þessi þáttur sé skoðaður,“ segir Steingrímur. Hann segir ekki tímabært að nefna nöfn einstaklinga eða fyrirtækja sem verið sé að skoða.

Ákveðið hefur verið að fela starfshópi sjálfstætt starfandi lögmanna að undirbúa skaðabótamálin. Verkefni hópsins verður meðal annars að athuga í hvaða tilvikum er líklegt að árangur náist með málshöfðun. Hópurinn mun einnig skilgreina einstök mál og velja þau sem líklegt er að geti haft hraðan framgang í dómskerfinu, og hafi fordæmisgildi fyrir önnur sambærileg mál.

Skaðabótamál gegn einstaklingum og lögaðilum yrðu rekin sem einkamál, og kröfur ríkisins eingöngu þær að fá bætur fyrir tjón sem hlotist hefur af verkum þeirra sem verða fyrir slíkri málshöfðun, að því er segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Steingrímur segir skaðabótamál geta verið fljótvirkari en saksókn og refsing, sé því til að dreifa. Ekki hefur verið endanlega ákveðið hvort ríkið fer þessa leið, né hvort slík málshöfðun, ef af verður, yrði í höndum ríkislögmanns eða annarra.

Starfshópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta mun stýra verkefninu og ráða tvo til þrjá lögfræðinga til að vinna að könnun og undirbúningi málshöfðunar.

Þegar upplýsingar koma fram um atburðarás, tjón og tjónvald verður hægt að krefjast kyrrsetningar eigna hans og höfða svo mál í kjölfarið.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að sönnunarkröfur í skaðabótamálum séu öðruvísi en í opinberum sakamálum. Ef gögn sýni brotlega eða gáleysislega hegðun stefndu sem valdið hafi ríkinu eða almenningi tjóni sé hægt að krefjast skaðabóta án þess að tekin sé afstaða til þess hvort rétt sé að refsa viðkomandi fyrir athæfið.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×