Innlent

Ræða um mögulegt samstarf við Europol

Fulltrúar Evrópulögreglunnar Europol munu í dag funda með sérstökum saksóknara um það hvort og þá hvernig unnt er að nýta sérþekkingu stofnunarinnar við rannsóknina á bankahruninu.

Arnar Jensson, fastafulltrúi Íslands hjá Europol, og Carlo van Heuckelom, yfirmaður efnahagsbrotadeildar stofnunarinnar, munu fyrst hitta dómsmálaráðherra og starfsmenn ráðuneytisins og funda með þeim um heimildir til kyrrsetningar og haldlagningar eigna. Þar verður meðal annars farið yfir evrópska löggjöf á þessu sviði og hvaða úrbóta kann að vera þörf á Íslandi.

Því næst munu þeir funda um það sama með Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, auk þess sem rætt verður um hugsanlegt samstarf embættisins við stofnunina.

„Þarna er töluvert mikil þekking sem við höfum ugglaust hag af að komast í," segir Ólafur Þór. Hann segir að innan Europol séu ýmis svið sem kunni að nýtast við rannsóknina á bankahruninu, „án þess að ég geti tilgreint það nákvæmlega hvað það er sem við ætlum að gera."

Ólafur mun síðan síðar í vikunni funda með erlendum ráðgjöfum sínum, þeim Evu Joly, Helge Skog-seth Berg frá Noregi og Jean-Michel Matt frá Frakklandi um framgang rannsóknarinnar.

Á borði sérstaks saksóknara eru nú 36 mál. Umsóknarfrestur rennur út í dag um störf þriggja saksóknara sem starfa munu við hlið Ólafs og mun hver þeirra hafa með höndum mál eins viðskiptabankanna þriggja.

Skemmst er að minnast þess að auglýsa þurfti stöðu Ólafs í tvígang áður en nokkur sótti um, en það sama er ekki upp á teningnum nú, að sögn Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra. Hún segir að umsóknir hafi þegar borist og að þeim kunni enn að fjölga.- sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×