Innlent

Bauhaushúsið fer hvergi

Bauhaus hefur engar fyrirætlanir um að flytja húsið sem reist var á Íslandi til annars lands. Talsmaður fyrirtækisins segir að ætlunin sé að bíða eftir að efnahagsástandið á Íslandi komist aftur í fyrra horf.

Bauhaus hafði rétt lokið við að reisa 22 þúsund fermetra hús við Vesturlandsveginn þegar kreppan skall á. Búið var að ráða flesta þeirra eitthundrað og fimmtíu starfsmanna sem áttu að vinna þar og opnunartíminn hafði verið ákveðinn síðustu áramót.

Þegar ljóst var hversu kreppan yrði djúp á Íslandi var opnun hinsvegar slegið á frest. Rekstrarkostnaður við húsið er auðvitað umtalsverður og þar koma eðlilega engar tekjur á móti.

Húsið er að mestu stálgrindahús og því tiltölulega auðvelt að taka það niður, enda hefur gengið þrjálátur orðrómur um að það ætli Bauhaus að gera og reisa húsið í öðru landi.

Gréta Jul talsmaður Bauhaus í Danmörku sagði í samtali við fréttastofuna í dag að ekkert slíkt sé til umræðu. Fyrirtækið haldi sig við þá ákvörðun að bíða þartil efnahagsástandið batni á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×