Viðskipti innlent

Stofnuð verði opinber fasteignafélög til að yfirtaka skuldsettar eignir

Skúli Thoroddsen
Skúli Thoroddsen
Starfsgreinasambandið leggur til að stofnuð verði sérstök opinber fasteignafélög sem geta yfirtekið skuldsettar eignir og forðað fólki frá gjaldþroti. Félögunum verði síðan gert skylt að leigja þessar eignir til baka til að tryggja áframhaldandi búsetu.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til handa skuldsettum heimilum.

Starfsgreinasambandið vill koma á fót opinberum fasteignafélögum, hugsanlega með aðkomu lífeyrissjóða eða annarra fjárfesta, sem geta yfirtekið skuldsettar eignir.

Markmiðið er að forða fólki frá gjaldþroti og einnig koma í veg fyrir að fjölskyldur missi heimili sitt.

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að svipuð félög séu mjög algeng í Skandinavíu.

„Það gæti alveg hugsast að þetta sé góð lausn. Það er að slík fasteignafélög tækju yfir eignir fólks í vanda en þá um leið að þessum félögum yrði gert skylt með lögum að tryggja einstaklingum áframhaldandi búsetu í þessum eignum. Þá á einhverjum leigukjörum sem samsvara að minnsta kosti ekki hærri upphæðum en vaxtabyrði var af lánum áður en bankarnir hrundu," segir Skúli.

Hann segir einnig að ríkisstjórnin þurfi að koma fram með raunhæfar lausnir á vanda skuldsettra heimila. Opinber fasteignafélög gætu verið hluti af þeirri lausn.

„En ég er ekki að segja að hún henti öllum, en hún myndi bjarga mörgum. Hún mundi bjarga fjölskyldum frá gjaldþroti og koma í veg fyrir þá örvæntingu sem ríkir í mörgum fjölskyldum sem eru við það að missa húsnæði sitt og vita ekki sitt rjúkandi ráð hvert stefnir."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×